138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

staða sparifjáreigenda.

[11:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann þó veitti við nokkrum spurningum. Hann svaraði engu um ríkisábyrgðina. Hann svaraði engu um það hvernig skattarnir hafa verkað á sparifjáreigendur. En hann gat þess, sem er rétt, að til að skapa atvinnu þarf annaðhvort áhættufé, þ.e. hlutafé, eða lánsfé, þ.e. sparnað. Ríkisstjórnin er að ráðast á hvort tveggja með stórhækkun skatta á fjármagn og hagnað fyrirtækja. Með tryggingagjaldi er hún enn fremur að ráðast á atvinnusköpun í landinu. Hún er kerfisbundið, hvort sem það er meðvitað eða ekki, kannski veit hún ekkert af því, að vinna gegn sköpun atvinnu í landinu. Hún er kerfisbundið að vinna að atvinnuleysi með því að skattleggja í auknum mæli bæði áhættufé og sparifé. Hún hefur engan áhuga á því þó að vextir í bönkunum séu neikvæðir. Hún stóreykur skattlagningu á neikvæðar tekjur.