138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

launakjör hjá opinberum fyrirtækjum.

[11:02]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sporin hræða í efnahagsmálum og sporin hræða í viðskiptalífi okkar landsmanna. Við þekkjum nýliðnar sögur í þeim efnum. Í morgun gat að líta frétt um bílakaup Orkuveitu Reykjavíkur fyrir fjármálastjóra þess fyrirtækis, upp á um 14 millj. kr., og tel ég að það hafi ekki verið í miklu samræmi við efnahagsreikning þess fyrirtækis. En það er önnur saga. Ég hef meiri áhyggjur af því að a.m.k. tvö launakerfi séu að verða til hjá okkur Íslendingum vegna þess hversu viðskiptalífið er farið að fara frjálslega með reglur og lagaumhverfi sem það á að búa við. Löggjöf um fjármálafyrirtæki virðist vera leikin með þeim hætti að flúið er yfir í hlutafélögin, þar sem hægt er að leika sér með óábyrgari hætti getum við sagt, og við sjáum að Landsbankinn, sem að miklum hluta er í eigu ríkisins, er farinn að leika þennan leik, svo sem frá er greint í fjölmiðlum í dag og má sjá t.d. á bls. 2 í Morgunblaðinu.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvort þessi leikur að lögum verði liðinn hjá fyrirtækjum sem eru að meiri hluta í eigu ríkisvaldsins, hvort fjármálaráðherra hyggist beita sér með afgerandi hætti í þessu máli og hvort hann hafi yfirleitt einhver tæki til að taka á vandanum. Eða munum við sjá það gerast í síauknum mæli að til verði ofurlaunakerfi á ný hjá þeim sem eru í aðstöðu til þess að geta unnið með þeim hætti og hinir megi búa við skert laun eða atvinnuleysi, og er þar nokkur munur á?