138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

launakjör hjá opinberum fyrirtækjum.

[11:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir væntanlega hvernig að þessu máli hefur verið staðið, að laun svokallaðra æðstu embættismanna, ráðherra, alþingismanna, dómara og forstöðumanna opinberra hlutafélaga, heyra undir kjararáð. Þau voru færð niður með lagaboði um 5–15% og hafa síðan verið fryst tvö ár í röð með þeirri niðurfærslu. Síðan varð önnur breyting þar sem teknir voru inn undir kjararáð fjölmargir forstjórar opinberra hlutafélaga og framkvæmdastjórar eða forstjórar fyrirtækja í eigu ríkisins, eða að meiri hluta í eigu ríkisins. Kjararáð hefur nokkurn veginn lokið við að úrskurða um launakjör þessara manna og hefur lækkað þau á bilinu 15–35% að því er virðist. Með þessu er verið að reyna að búa til samræmda lækkun og samræmda launastefnu hjá þeim sem gegna slíkum stöðum á vegum ríkisins. Það er hins vegar alveg ljóst að þegar kemur að almenna vinnumarkaðinum er það upp og ofan hvernig hann hefur aðlagað sig að breyttum aðstæðum; 2007-andrúmsloftið virðist enn lifa í ákveðnum afkimum samfélagsins og í vissum fyrirtækjum. Það leiðir til þess að upp kemur umtalsverður munur á hinum lækkuðu launum, sem ýmsir forustumenn í opinberum rekstri njóta þá eftir aðgerðir stjórnvalda og kjararáðs, og þeirra sem þeir bera sig saman við á almennum vinnumarkaði.

Það er þó rétt að hafa í huga að fyrir liggja upplýsingar um að víða hjá einkaaðilum hafa laun stjórnenda verið lækkuð og margir hafa gert það að eigin frumkvæði að taka þau talsvert niður. Annars staðar virðist það ekki hafa gerst eða a.m.k. í takmörkuðum mæli. Þannig er ástandið. Það er ákveðið misræmi í gangi og má segja að sumir lifi enn í gamla hugarheiminum, í gömlu hugmyndafræðinni, en ég spái nú að þeim fari fækkandi.

Hvort sem það eru einkafyrirtæki eða orkufyrirtæki (Forseti hringir.) í eigu annarra en ríkisins sýnist mér nú almennt að þeim veitti ekki af að fylgja góðu fordæmi ríkisins og reyna að draga úr launakostnaði ofan frá.