138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

launakjör hjá opinberum fyrirtækjum.

[11:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég náði nú ekki að koma inn á þetta atriði. Það er alveg rétt, málefni Landsbankans sem tengjast dótturfélögum eða eignarhaldsfélögum þess hafa komið til skoðunar í ráðuneytinu. Þangað hefur verið sent erindi til að spyrjast fyrir um það hvernig túlka beri þær aðgerðir sem bankinn hefur farið út í, sem sagt að skjóta inn milliþrepi á milli eignarhaldsfélaga sinna og bankans, þannig að það er komið í þriðja lið. Ráðuneytið hefur haft þetta til skoðunar og mun senda niðurstöður þeirrar skoðunar til Bankasýslunnar og fela Bankasýslunni, sem fer með eignarhaldið samkvæmt lögum sem Alþingi hefur samþykkt, að grípa til viðeigandi ráðstafana. Það er að sjálfsögðu ætlunin að framfylgja lögum um kjararáð, framfylgja eigendastefnu ríkisins, sem hefur verið samþykkt og gefin út og Bankasýslan fer með það hlutverk að framfylgja henni. Þar er sérstaklega vikið að hófsemi í launamálum og það verður ekki liðið þegjandi að menn finni sér einhverjar hjáleiðir í þeim efnum. Það er ljóst að nýr bankastjóri Landsbankans (Forseti hringir.) tekur laun eingöngu samkvæmt úrskurði kjararáðs og þá kæmi upp sú staða að ýmsir undirmenn hans í bankanum væru á mun hærri kjörum ef menn ætluðu að fara (Forseti hringir.) slíkar leiðir. Það getur varla (Forseti hringir.) verið heillavænlegt fyrir bankann.