138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

lengd þingfundar.

[11:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er lagt til að efnt verði til kvöldfundar þriðja daginn í röð, þriðja daginn í þessari viku. Það liggur fyrir að mörg mál eru á dagskránni sem ríkisstjórnin óskar eftir að verði kláruð og lítið um forgangsröð og verkstjórn í þinginu. Ég vildi spyrja hæstv. forseta að því hvort uppi séu áform um það, hjá forseta og forsætisnefnd, að hafa kvöldfundi það sem eftir lifir þingstarfa þar til þingið fer í sumarleyfi. Það væri ágætt fyrir okkur þingmenn að fá þetta upplýst svo að við getum gert okkar plön með meiri fyrirvara en venja er að okkur sé veittur.