138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

lengd þingfundar.

[11:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla að sitja hjá í þessari atkvæðagreiðslu. En ég leyfi mér að mótmæla því harðlega sem fram kom hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni að í óskum okkar þingmanna um að fá upplýsingar um það hvernig þingfundum verður háttað á næstu dögum felist einhverjar kvartanir og einhver kvein um að við þurfum að vinna vinnuna okkar. Það er auðvitað ekki svo, við mætum hér og vinnum þá vinnu sem okkur er ætlað að sinna og höfum gert það. Við í stjórnarandstöðunni höfum einmitt mætt á þessa kvöldfundi (Gripið fram í: Nefndirnar …) og nefndarfundi en stjórnarliðar, eins og hv. þingmaður sem ber okkur þetta á brýn, eru hér eins og sjaldséðir hvítir hrafnar og nenna ekki að mæta eða sjá sér ekki fært að mæta og taka þátt í umræðum um umdeild mál á kvöldfundum. Og hafi einhver kastað steinum úr glerhúsi í þessu máli er það hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson og ég geri þá ráð fyrir að hann muni sitja hér alla kvöldfundi það sem eftir lifir þessa þings.