138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

lengd þingfundar.

[11:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að ég vil ekki veita heimild fyrir því að við getum verið hér þar til næsti fundur hefst, væntanlega kl. 10.30 í fyrramálið, en það er það sem felst í tillögu frú forseta.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að það er ekki eftirspurn eftir uppþoti og látum á Alþingi eins og var í stjórnarandstöðu í hans tíð í. Ég er alveg sammála því. En ég verð að segja við hæstv. fjármálaráðherra að það er heldur ekki eftirspurn eftir slíku orðalagi og háttalagi sem hæstv. ráðherra viðhafði við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og heldur ekki eftir því að hæstv. ráðherrar standi í ræðustól og reyni að ala fólk upp. Við skulum bara átta okkur á því.

Ég lýsi þingflokk Sjálfstæðisflokksins algerlega reiðubúinn til samstarfs um að ræða hér forgangsröðun mála og samstarfs um að ljúka þinginu með sóma og þeim hætti sem okkur er öllum sómi að en það þarf tvo til í slíka samningagerð.