138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

lengd þingfundar.

[11:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mér verður nú á að taka mér í munn fleyg orð hæstv. fjármálaráðherra: Þær eru mættar í salinn, atkvæðagreiðsluvélar ríkisstjórnarinnar, og meira að segja farnar að taka til máls og tala síðan niður til annarra þingmanna sem hafa setið hér þingfundi og tekið þátt í pólitískri umræðu með eðlilegum hætti. Það var dálítið sérkennilegt að hlýða á gamlan ræðulengdarkóng, hæstv. fjármálaráðherra, kvarta undan því að haldnar væru ræður í málum sem þyrfti að ræða. Við erum auðvitað öll af vilja gerð til að reyna að ljúka þinginu með bærilegum hætti en frumkvæðisskyldan hvílir hins vegar á ríkisstjórninni um að koma fram með hugmyndir sínar um hvar forgangsröðin liggi, hvernig hægt sé að vinna að þessum málum. Ríkisstjórnin hefur ekki haft burði til að leggja neinar slíkar alvörutillögur fram og getur þess vegna ekki verið að kvarta undan því að við finnum að verklagi ríkisstjórnarinnar og hvernig haldið er á málum í þinginu. Við höfum aldrei kvartað undan því að sitja kvöldfundi, við höfum tekið virkan þátt í þeim og það væri gaman (Forseti hringir.) svona til tilbreytingar að sjá framan í andlitið á einum og einum stjórnarliða á kvöldfundum á næstunni.