138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt að frekar fá mál hafa komið inn sem varða heilbrigðisþjónustuna á yfirstandandi þingi. Þau mál sem þó hafa komið eru öll frekar góð og samstaða hefur verið um þau á milli flokka. Þetta mál er svolítið annars eðlis. Það gengur út á það að hæstv. heilbrigðisráðherra vildi fá heimildir til að taka innra skipulag heilbrigðisstofnana úr lögum og gera lögin sveigjanlegri. Þannig gætu menn hagrætt í innra skipulagi, losnað við fjölda yfirstjórnenda sem nú eru samkvæmt lögum og gert þetta sveigjanlegra. Meiri hluti þingsins virðist ekki ætla að fallast á það. Það er mikil synd að við ætlum ekki að nýta tækifærið til að samþykkja eina hagræðingarfrumvarpið sem hefur komið fram um heilbrigðisþjónustuna.

Ég get ekki samþykkt þessa tillögu sem kemur frá meiri hluta heilbrigðisnefndar og sit hjá.