138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og fyrst hæstv. forseti ætlar að hlutast til um svar við fyrirspurnum vil ég leggja í það púkk.

Ég lagði inn fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra í marsmánuði um sumarlokanir á stofnunum og heimilum sem heyra undir hæstv. félagsmálaráðherra. Ég hef ekki enn fengið svar við þeirri fyrirspurn. Þar sem nú eru fáir þingdagar eftir og ég tel víst að ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson séum ekki ein um að vera í þeirri stöðu að bíða eftir svörum við fyrirspurnum, óska ég eftir því við hæstv. forseta að forseti hlutist til um það að allir ráðherrar geri nú skurk í að svara þeim fyrirspurnum sem liggja fyrir, þeim skriflegu fyrirspurnum sem við bíðum eftir svari við, vegna þess að tíminn er óðum að renna út.