138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðu hans. Ég er að velta því fyrir mér, í framhaldi af umræðum sem áttu sér stað hér í gærkvöldi, hvort hv. þingmaður geti ekki fallist á það að skynsamlegast sé að haga málum við endurskoðun stjórnarskrár með einhverjum svipuðum hætti og hv. þm. Þráinn Bertelsson og Njörður P. Njarðvík, sem er einn helsti hugmyndafræðingur og talsmaður þess að skipað verði stjórnlagaþing, hafa lagt til, þ.e. að fengin verði sérfræðinganefnd, menn sem eru sérfræðingar á sviði stjórnskipunar o.s.frv., til að smíða nýja stjórnarskrá eða gera þær breytingar á henni sem taldar eru nauðsynlegar og það verði síðan lagt fyrir Alþingi eftir ákveðinn tíma. Ég velti því fyrir mér hvort það séu ekki þau vinnubrögð sem allir þingmenn ættu að geta sameinast um að séu skynsamleg í stað þess að taka mikinn tíma á síðustu dögum þingsins frá málum sem skipta heimilin, a.m.k. á næstu mánuðum, meira máli, þ.e. að við tökum hér til hendinni og afgreiðum mál sem hugsanlega gætu leyst eða linað þá erfiðleika sem fyrirtæki og heimili kljást við.