138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:36]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Vandinn við ályktun flokksþings eða landsfundar Framsóknarflokksins frá því í janúar á síðasta ári er 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það hefði þurft að breyta 79. gr. áður en til þess kæmi, þá hefði verið grundvöllur fyrir þessu.

Ég fagna því hins vegar að hv. formaður þingflokks framsóknarmanna taki jafnjákvætt í hugmyndir, hafi ég skilið hann rétt, hv. þm. Þráins Bertelssonar og Njarðar P. Njarðvíks, sem eru í rauninni einnig samhljóða nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar, þ.e. fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, um hvað sé skynsamlegast.

Við erum öll sammála um að endurskoða þurfi stjórnarskrána. Við getum deilt um það hvort semja eigi nýja stjórnarskrá eða endurskoða stjórnarskrá, ég veit stundum ekki hver er munurinn þar á þegar menn tala þannig, að fá til þess bæra okkar helstu og bestu sérfræðinga til að leggja hönd á plóginn. Hafa menn í þeim efnum m.a. vitnað til þeirrar miklu og góðu vinnu sem lá að baki skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég hygg að það sé ábyrgðarleysi frá hendi þessarar virðulegu stofnunar að standa ekki að jafnbrýnum málum með jafnskynsamlegum hætti og að leita til helstu sérfræðinga okkar í þessum efnum, enda hefur reynslan sýnt okkur að það gefst vel.