138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Með lögum nr. 125/2008 var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að yfirtaka vald hluthafafundar og víkja frá stjórn fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitinu var jafnframt veitt heimild til að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá og skipa í leiðinni fimm manna skilanefnd fyrir hvern fallinn banka. Hlutverk skilanefnda er að starfa í samræmi við ákvæði hlutafjárlaga og fara með öll málefni fjármálafyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna viðkomandi banka, svo og að annast rekstur hans.

Skilanefndirnar virðast lifa sjálfstæðu lífi og hafa sumir líkt þeim gjörningum sem fara fram innan skilanefndanna við myrkvað svarthol, svo mikil er leyndin yfir starfi þeirra. Réttilega er hægt að tala um að skilanefndirnar séu ríki í ríkinu eins og bersýnilega kom í ljós þegar Icesave-málið var til umræðu í þinginu. Fjárlaganefnd var neitað um upplýsingar úr lánabókum Landsbankans af skilanefnd bankans en samt fjallaði fjárveitingavaldið um risavaxna ríkisábyrgð, ríkisábyrgð sem taka átti mið af og breytast miðað við hvernig endurgreiðslum úr þrotabúinu yrði háttað.

Skipan skilanefndanna hefur sætt mikilli gagnrýni og eru miklir hagsmunaárekstrar aðila sem í þeim sitja gagnvart þeim aðilum og fyrirtækjum sem þeir meðhöndla og fjalla um. Er dæmi um að sömu aðilar sitji hringinn í kringum borðið, t.d. má nefna að Lögfræðistofa Reykjavíkur kemur mikið við sögu þegar skipanir í skilanefndir bankanna eru skoðaðar. Að aðilar á sömu lögfræðistofu sitji í skilanefndum tveggja banka er óskiljanlegt. Hvar er hlutleysið og hver á að tryggja að þarna leki ekki upplýsingar á milli?

Nú ætla ég aðeins að tala um Landsbanka Íslands sem er að mestum hluta í eigu íslenska ríkisins því að eignarhaldi á hinum bönkunum er haldið leyndu fyrir landsmönnum og þingmönnum. Lárentsínus Kristjánsson er formaður skilanefndar gamla Landsbankans. Hann situr í stjórn nýja Landsbankans og hann er einn af eigendum Lögfræðistofu Reykjavíkur sem vinnur mörg verk fyrir skilanefndirnar. Þessi sami maður vann af fullum krafti fyrir hina svokölluðu útrásarvíkinga á árum áður og var t.d. settur yfir Gnúp af Glitni árið 2006 eftir að Glitnir hafði yfirtekið félagið. Þess ber að geta að Gnúpur var eigandi í Glitni á þessum tíma og því var hugsanlega um markaðsmisnotkun að ræða. Það finna dómstólar væntanlega út.

Á árinu 2006 var þessum aðilum ljóst að bankakerfinu yrði ekki bjargað og miklir bókhaldsfimleikar voru framdir. Allar þessar alvarlegu upplýsingar eru aðgengilegar á netinu og hvet ég þingmenn til að kynna sér þær.

Hvers vegna er t.d. ekki búið að leysa þennan mann, formann skilanefndar Landsbankans, frá störfum, virðulegi forseti? Þetta viðgengst mánuð eftir mánuð og stjórnvöld virðast hæstánægð með þá spillingu sem þrífst í þeirra skjóli í þessum skilanefndum.

Á meðan á öllum þessum myrkraverkum stendur í skjóli ríkisstjórnarinnar fara fyrirtæki á hausinn, þeim er skipt upp eða úthlutað til vildarvina eða það sem er stundum kallað til „réttra aðila“. Þau eru hreinsuð af skuldum sínum með miklum afskriftum hjá bönkunum, þá oftast í gegnum skilanefndirnar.

Þess ber að geta að samkvæmt nýjustu upplýsingum nam sameiginlegur rekstrarkostnaður slitastjórna og skilanefnda — þetta er tekið hér saman — gamla Landsbankans 11,5 milljörðum kr. á síðasta ári. Samtals hjá bönkunum öllum nam þessi kostnaður 20 milljörðum kr. Þetta eru svimandi háar upphæðir, frú forseti. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki skýlt sér á bak við að hún hafi ekki lögsögu yfir skilanefndunum því að í upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu kemur fram að í upphafi hafi skilanefndirnar gert mánaðarlega grein fyrir störfum sínum með skýrslum til Fjármálaeftirlitsins og á fundum, en við gildistöku laga nr. 44/2009 hafi því verklagi verið breytt. Fjármálaeftirlitið hefur nú samt sem áður hér eftir, eftir setningu þessara laga, heimild til að fá aðgang að öllu bókhaldi, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum er varða starfsemi eftirlitsskyldra aðila.

Fjármálaeftirlitið heyrir undir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Því spyr ég að lokum, virðulegi forseti: Hvað ætlar hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að gera í þessum málum er varða skilanefndirnar? Er einhvers að vænta? Er breytinga að vænta? Hvernig standa málin?