138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir ágætt yfirlit. Mér virðist ekkert því að vanbúnaði að leggja niður þessar skilanefndir sem við settum upp í kjölfar bankahrunsins, enda sjái nú fyrir endann á verkefnum þeirra. Þær voru settar upp til tímabundinna verkefna og hafa unnið að því að leysa úr þeim og auðvitað er mikilvægt að þær festist ekki í sessi árum saman.

Slitastjórnirnar hafa tekið til starfa og það eru augljóslega heimildir fyrir því að þær auki við sig eftir því sem verkefni frá skilanefndunum leggjast af. Manni virðist að það sé að verða býsna viðurhlutamikil umgjörð að vera með skilanefndir, slitastjórnir og eignarhaldsfélög og að sá tímapunktur hljóti að vera að nálgast að slitastjórnirnar taki alfarið við og ljúki þessum málum. Það getur auðvitað tekið 2–3 mánuði að hnýta þá enda sem lausir eru eða kannski eru einhver sjónarmið um að ljúka þurfi þessu reikningsári í þessari starfsemi en auðvitað er kúfurinn af verkefnunum sem skilanefndunum voru ætluð að baki og þær hafa skilað miklu verki á fremur stuttum tíma.

Ég hvet hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eindregið til að huga að þessum þætti og kannski jafnframt að upplýsa okkur vegna þess að auðvitað hefur talsvert verið rætt um rekstrarkostnað. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, þar þurfa menn að horfa til þeirra eigna sem fjallað er um og hann vekur athygli á því að þar virðist rekstrarkostnaður skilanefndanna vera mjög mismunandi, frá því að vera 0,3% af eignunum og upp í 1%. Ég held að (Forseti hringir.) það skipti okkur þá máli hverjir kosta 1% af eignunum og hverjir eru með miklu lægri rekstrarkostnað. (Forseti hringir.)