138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:13]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli sem ég hygg að sé mjög brýnt. Við skulum bara tala hreint út. Skilanefndir hinna föllnu banka og sparisjóða eru hin nýja valdastétt á Íslandi. Það er ólíðandi að slík valdastétt sé og starfi með þeim hætti sem hún gerir. Hún er öllum óháð og virðist ekki þurfa að svara fyrir eitt eða neitt gagnvart einum eða neinum og þannig verður það að óbreyttu næstu 5–7 árin, jafnvel lengur ef ekkert verður að gert. Ég spyr hvort hæstv. ríkisstjórn og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vilji að málum verði þannig háttað hér á hæstu árum. Ég skil í þessu samhengi af hverju ekki er hægt að koma fram með skynsamlegt frumvarp er tekur á helstu vandamálum sem upp hafa komið í skipulagi fjármálastofnana og varða ekki síst eignarhald.

Því er haldið fram, og það hygg ég með nokkuð réttu, að þeir sem hafa valist í skilanefndir bankanna hafi fengið stærsta lottóvinning lífs síns, enda eru launakjörin með þeim hætti að þau þekktust vart nema hjá helstu og æðstu starfsmönnum íslensku bankanna þegar þeir flugu hvað hæst á árum áður. Ég spyr hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að lögum verði breytt með þeim hætti að hægt verði að koma böndum (Forseti hringir.) á skilanefndirnar og þær verði skipaðar með svipuðum hætti og gert er þegar stjórnir hlutafélaga (Forseti hringir.) eru kosnar á hluthafafundum.