138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:16]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel nauðsynlegt að rifja upp hvert hlutverk skilanefnda er. Hlutverk þeirra er að hafa umsjón með eignum þrotabúa, hámarka verðmæti þeirra eins og hægt er og varðveita þar til formlegt greiðsluferli hefst. Eignir föllnu bankanna eru t.d. fasteignalán sem skilanefndum ber að innheimta að fullu án tillits til þess hvort lántakendur hafi orðið fyrir forsendubresti eins og gengishruni, verðbólguskoti og atvinnuleysi. Margir hafa kvartað yfir skilanefnd SPRON sem ekki er tilbúin að bjóða upp á sömu skuldaúrræði og Arion banki en sá banki þjónustar útlánasafn SPRON. Þetta svíður fyrrum viðskiptavinum SPRON sem hafa orðið fyrir sama forsendubresti og viðskiptavinir Arion banka.

Frú forseti. Að mínu mati er óviðunandi að lántakar fái skuldaúrræði eftir geðþóttaákvörðunum banka og skilanefnda. Kvartað hefur verið yfir því að skilanefndir föllnu bankanna séu eftirlitslausar. Sú er ekki raunin. Fjármálaeftirlitið getur hvenær sem er skoðað bókhald og starfsemi þeirra. Auk þess hitta kröfuhafar skilanefndirnar reglulega til að fara yfir stöðuna á búunum. Ríkið er kröfuhafi í föllnu bönkunum eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gat um. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Fjármálaráðherra á fyrir hönd ríkisins að veita skilanefndum strangt aðhald, gera athugasemdir við háan kostnað og þrýsta á þær að senda ríkisskattstjóra upplýsingar um möguleg skattalagabrot í bönkunum. Ríkisskattstjóri hefur kvartað yfir því að gögn berist seint frá skilanefndunum og að þau séu svo óaðgengileg að þau komi að engu gagni.

Frú forseti. Við þurfum öll (Forseti hringir.) að leggjast á eitt til að veita skilanefndunum aðhald.