138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:18]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt af því sem komið hefur fram hér í dag, m.a. í máli málshefjanda, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, og hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Mig langar samt að víkja örlítið frá umræðuefninu og tala um málefni Landsbankans þótt þau séu strangt til tekið ekki á dagskrá. Landsbankinn er nefnilega, rétt eins og skilanefndirnar, eins konar ríki í ríkinu. Þrátt fyrir að vera að fullu í eigu ríkisins er Landsbankinn ekki opinbert hlutafélag eins og önnur félög í eigu ríkisins. Um Landsbankann gilda því ekki þær reglur eða skilyrði sem eiga við um opinber hlutafélög. Landsbankinn er ríkisfyrirtæki sem hegðar sér eins og einkafyrirtæki og neitar að lúta þeim lögum og reglum sem ríkið setur. Eitt skýrasta dæmið um það er eignarhaldsfélögin Vestia og Reginn sem voru dótturfélög Landsbankans en eru nú eins konar dótturdótturfélög og þannig komast stjórnendur hjá því að hlíta Kjaradómi um að engin laun ríkisstarfsmanna megi vera hærri en laun forsætisráðherra. Ég er reyndar ekki hrifin af þeim lögum en mér finnst ólíðandi að ríkisfyrirtækið Landsbankinn hundsi lög Íslands með þessum hætti. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að gera Landsbankann að opinberu hlutafélagi.

Í lokin þakka ég hv. málshefjanda fyrir umræðuna.