138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Ég er pínulítið óklár í þessu öllu saman. Samkvæmt mínum skilningi sjá skilanefndirnar um eignir hinna föllnu banka, sjá um að hámarka virði þeirra til þess að kröfuhafar fái sem mest fyrir sinn snúð. Mér skilst að kröfurnar séu rétt tæpir 4.000 milljarðar og þar af er íslenska ríkið kröfuhafi upp á 100–200 milljarða, eitthvað svoleiðis, þannig að kröfur ríkisins eru bara örlítið brot af kröfunum í þessa banka.

Hverjir ættu hagsmunir Íslendinga að vera? Hagsmunir Íslendinga ættu að vera þeir að sem flestir ynnu hjá skilanefndunum og fengju sem hæst laun vegna þess að kröfuhafarnir borga og þeir eru ekki Íslendingar nema að örlitlu leyti. Ég skil því ekki alveg þessa umræðu, hvort hún snýst um einhvers konar hagsýni, eins og sumir vilja vera láta, eða einfaldlega um það að við viljum ekki sjá neinn með svona há laun í íslensku þjóðfélagi þrátt fyrir að einhverjir allt aðrir en Íslendingar borgi. Það er látið eins og þetta bitni á íslenska ríkinu sem það gerir að vissu leyti en bara að örlitlu leyti og það kemur margfalt til baka í skatttekjunum af þeim sem vinna hjá skilanefndunum. Ég veit því ekki alveg á hvaða leið þessi umræða er.