138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svörin og auk þess þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það sem vakti mesta athygli mína í svari ráðherrans var að hann taldi kostnað við skilanefndirnar ótrúlega lágan í alþjóðlegu samhengi og að þessir 20 milljarðar sem væru nú þegar farnir á síðasta ári í slitastjórnir og skilanefndir væru lítið brot af því. Þá fer ég að hugsa um hverjir hagnist á því að bankar fari á hausinn. Það eru þeir fagaðilar sem starfa að þessu. Mér finnst ekki réttlætanlegt að hafa hér mikinn kostnað vegna þess að hann sé kannski ekki svo mikil á heimsvísu. En þetta hefur ríkisstjórnin gjarnan gert, borið kostnað og annað saman við það allra versta.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson talaði um launin. Ég hef alls ekki neitt á móti háum launum. Það væri óskandi að rekin væri hálaunastefna í samfélaginu og að þetta hrun hefði ekki orðið. Ég vil rétt benda á að ríkisstjórninni var nær að koma fram með þá lagasetningu að enginn í opinbera geiranum mætti hafa hærri laun en forsætisráðherrann sjálfur. Það eru mjög sjálfhverf lög og þýðir að nú reyna aðilar að finna leiðir til að smjúga undan þeim lögum. Ég ætla svo sem ekkert að minnast hér sérstaklega á seðlabankastjórann en dótturfélög Landsbankans voru akkúrat nefnd í fyrirspurn í morgun.

Virðulegi forseti. Ég hef nú þegar hafið vinnu að gerð þingsályktunartillögu þar sem lagt verður til að skipuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka skipan og störf skilanefnda bankanna. Þessi þingsályktunatillaga verður mjög í anda þingsályktunar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og vænti ég þess að þingmenn allra flokka verði meðflutningsmenn mínir því að oft var þörf en nú er nauðsyn (Forseti hringir.) að rannsaka hvað hefur farið fram í þessum skilanefndum.