138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem um margt hefur verið ágæt þótt menn séu augljóslega ekki alveg sammála. Til mín var beint nokkrum spurningum. Sumum var reyndar svarað af hv. þingmönnum en eitthvað stendur eftir, m.a. um það hvað skilanefndirnar eru nákvæmlega að gera. Það er þá fyrst og fremst þessi eignaumsýsla, þ.e. að fara með eignir þrotabúanna, innheimta lán, selja eignir og gera annað sem snýr að þeirri eignaumsýslu. Því starfi lýkur í sjálfu sér ekki fyrr en þrotabúin hafa verið gerð upp þannig að það getur tekið allmörg ár en hafa ber í huga að umsvifin fara ört minnkandi eftir því sem eignirnar minnka.

Rætt hefur verið hvort slitastjórnir ættu alfarið að taka yfir þau verkefni sem skilanefndir eru með núna. Fyrir því er hægt að færa rök bæði með og á móti, ekki gefst tími til að rekja það allt hér. Ég vil þó leyfa mér að halda því fram að í grunninn skipti það ekki höfuðmáli hvort þessum verkefnum er skipt á milli þessara tveggja aðila eða þau öll færð yfir á herðar slitastjórna, einfaldlega vegna þess að vinnan sem þarf að vinna verður sú sama eftir sem áður og kostnaðurinn mundi væntanlega lítið ef nokkuð breytast við það að skipta þessu á milli nefndanna með öðrum hætti. Þessa vinnu þarf að vinna og hún er mjög dýr. Ég leyfði mér að halda því fram áðan að í alþjóðlegum samanburði og reyndar líka í innlendum samanburði við kostnað almennt við slit þrotabúa séu þessar tölur ekki háar en í krónum talið verða tölurnar mjög háar, einfaldlega vegna þess að það eru hátt á fjórða þúsund milljarðar undir.

Ég vil að lokum taka undir ýmislegt af því sem fram kom í stuttri ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar en þó benda á að þau sjónarmið sem hann viðraði eiga varla við um (Forseti hringir.) þrotabú Landsbankans.