138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mótmæli því harðlega sem fram kom í ræðu hv. þingmanns um að stjórnarandstaðan hefði hafið málþóf um þetta mál. Það er býsna langsótt að halda því fram þegar einir þrír eða fjórir sjálfstæðismenn hafa tjáð sig um málið en ekki fleiri. Því fer víðs fjarri að hér sé um eitthvert málþóf að ræða eins og hv. þingmaður nefndi.

Við erum hins vegar að ræða um stórmál og það er eðlilegt að menn hafi á því skoðanir. Það er hins vegar ábyrgðarhlutur að segja ekki sínar skoðanir um þetta frumvarp á þinginu. Við erum að tala um frumvarp sem mælir fyrir um að stofnað verði til stjórnlagaþings sem hugsanlega mun mæla fyrir um breytingar á stjórnskipulagi okkar og jafnvel þjóðskipulagi. Og gera lítið úr því að þingmenn á Alþingi hafi einhverjar skoðanir á því og kalla það málþóf áður en menn taka til máls eins og ég, ég hef ekki haldið ræðu um þetta mál einu sinni fram að þessu, er náttúrlega ekki boðlegt.

Ég mótmæli því líka harkalega sem hv. þingmaður sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri dragbítur á stjórnarskrárbreytingar. Það er algerlega rangt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðustu árum og áratugum staðið fyrir mikilvægum breytingum á stjórnarskránni eins og endurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Ætli það hafi ekki verið í kringum 1999 þegar það var gert. Við höfum lagt til og það man hv. þingmaður að gerð yrði breyting á 79. gr. stjórnarskrárinnar til að auðvelda breytingar á stjórnarskránni.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann einnar spurningar. Ef við gefum okkur það að þetta frumvarp verði samþykkt, boðað til stjórnlagaþings og stjórnlagaþingið komist að niðurstöðu um breytingar á stjórnarskránni og þær tillögur verði lagðar fram í þinginu. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sem þingmaður á Alþingi telji sig að einhverju leyti bundinn af þeim tillögum sem frá hinu ráðgefandi stjórnlagaþingi koma.