138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður mótmælti því að hafið væri málþóf og ég skildi það þannig að það væri vegna þess að hann hefði ekki sjálfur tekið til máls í umræðunni (Gripið fram í: … fjórir.) og má þá kannski draga þá ályktun að það sé ekki fyrr en hann hefur tekið til máls. Sannleikurinn er auðvitað sá að málþóf getur birst með ýmsum hætti. Það getur birst í því að menn fara að tala mikið og lengi í öðrum málum sem eru á undan á dagskránni og enginn ágreiningur er um til að tefja að þetta mál komist á dagskrá. Þetta þekkja þingreyndir menn eins og hv. 5. þm. Norðvest., Einar K. Guðfinnsson, að það eru ýmsar aðferðir til í þessu efni. Látum það liggja á milli hluta, það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Þingmaðurinn sagði: Það er ábyrgðarhluti að segja ekki sína skoðun. Ég er sammála því og þess vegna var ég að flytja mál mitt og míns þingflokks sem fulltrúi hans og talsmaður í allsherjarnefnd um þetta mál þannig að hann getur þá ekki kvartað yfir því að sjónarmið mín hafi ekki komist á framfæri hvað þetta atriði snertir.

Síðan spyr hann að því hvort þingmenn séu þá bundnir af niðurstöðum ráðgefandi stjórnlagaþings. Það liggur í hlutarins eðli að þing sem er ráðgefandi er ekki bindandi og verður það í sjálfu sér ekki fyrir þingmenn en ég tel hins vegar að þegar Alþingi ákveður að setja á laggirnar ráðgefandi stjórnlagaþing þá eigi það að sjálfsögðu að vinna sína vinnu, koma með sínar tillögur inn í þingið og við séum bundin af því að taka þær til efnislegrar meðferðar og umfjöllunar og hlusta á þau ráð sem koma af ráðgefandi stjórnlagaþingi en auðvitað verður hver og einn alþingismaður að taka afstöðu til þeirra efnisatriða sem koma fram í þeim tillögum á grundvelli sinnar sannfæringar eðlilega, öðruvísi er ekki hægt að hafa það.