138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki leitt hugann að því sem þingmaðurinn nefnir, hvort hugsanlegt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu að stjórnarskrá. Ég þyrfti a.m.k. að hugleiða það betur með hvaða hætti það gæti orðið. Þingmaðurinn ræddi um þjóðaratkvæðagreiðslu um sérhverja grein stjórnarskrárinnar. Ef fram fer breyting á stjórnarskrá er það þannig að þegar Alþingi hefur samþykkt hana fer fram þingrof og nýjar kosningar og í þeim er m.a. verið að kjósa um þær stjórnarskrárbreytingar sem undir liggja þá. Þær geta auðvitað verið margar og um margar greinar stjórnarskrárinnar en samt er þjóðaratkvæðagreiðslan í sjálfu sér bara ein. Ég átta mig ekki alveg nákvæmlega á því hvernig hægt væri að gera þetta en eins og ég sagði áðan útiloka ég ekki neitt í því. Ef það eru fletir á því að ná meiri samstöðu um þetta mál en birtist í fyrirliggjandi nefndarálitum útiloka ég það ekki þar sem við erum í 2. umr. um málið. Ég mundi því bara áskilja mér rétt til að fá að hugleiða þetta betur milli umræðna.