138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði alls ekki að ég væri þeirrar skoðunar að taka ætti málið af dagskrá til haustsins nema síður sé. Ég sagði að ég væri alveg opinn fyrir því að skoða einhverjar leiðir sem hugsanlega væru færar til að ná meiri sátt um það en birtist í þeim skjölum sem við höfum fyrir framan okkur í þessu máli. En ég sæi hins vegar ekki alveg fyrir mér að frestun á málinu til hausts mundi þýða það að við næðum eitthvað breiðari samstöðu eða sátt um málið. Ég hef t.d. ekki vissu fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn mundi frekar vera með í þeim mikilvægu breytingum eða þessu mikilvæga máli jafnvel þó að frestun yrði á því. Hins vegar er 3. umr. enn eftir og hugsanleg vinna í nefnd á milli 2. og 3. umr. þar sem við getum komið fram með einhverjar uppbyggilegar og góðar hugmyndir um breytingar á málinu, við tökum þá afstöðu til þess.