138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka náðarsamlegast fyrir að fá að taka til máls í þessari umræðu og segja skoðun mína á frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar, frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Ég hef tekið eftir því að það hefur farið óskaplega í taugarnar á hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni og öðrum stjórnarliðum að stjórnarandstæðingar í þinginu skuli hafa einhverjar skoðanir á því máli sem hér er til umfjöllunar.

Það er réttur allra þingmanna að taka til máls um hvaða mál sem er og ég ætla að leyfa mér að segja skoðun mína á frumvarpinu og þeim álitaefnum sem að því snúa. Reyndar lít ég svo á að það sé ábyrgðarhlutur af hv. þingmönnum að tjá sig ekki um þetta mál því, eins og ég kom að í ræðu minni áðan, um stórmál er að ræða sem varðar hugmyndir um með hvaða hætti þingmenn vilja að staðið verði að breytingum á stjórnarskrá okkar, stjórnskipulagi og jafnvel þjóðskipulagi.

Það þýðir ekkert fyrir stjórnarandstöðuna og alls ekki Vinstri hreyfinguna – grænt framboð að kvarta yfir því að þingmenn geri skyldu sína og segi álit sitt á því sem fram kemur í frumvarpinu.

Ég tók reyndar eftir því í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi að hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lýsti því yfir að nú væri ábyrgð Alþingis mikil. Hann ítrekaði þá skoðun sína í umræðum í morgun, hann sagði að fyrir þinginu lægju gríðarlega mikilvæg mál sem brýnt væri að afgreiða. Ég get tekið heils hugar undir það með hæstv. fjármálaráðherra, þingið hefur mikilvæg mál til umfjöllunar, það eru mikilvæg verkefni sem þarf að leysa og ljúka til að leysa þann bráðavanda sem steðjar að ýmsum hópum í samfélaginu. Þar nefni ég sérstaklega skuldavanda heimilanna, stöðu atvinnulífsins og fyrirtækjanna og stöðu efnahagsmála. Þetta ágæta frumvarp hefur ekkert með endurreisn efnahagslífsins og björgunaraðgerðir fyrir heimilin í landinu að gera. Og ég er alveg sammála því sem fram kom hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni, að þingið ætti að sjá sóma sinn í því að snúa sér að öðrum og brýnni viðfangsefnum sem eru til umfjöllunar og bíða úrlausnar úti í samfélaginu en þessu máli um stjórnlagaþing.

Það er hins vegar þannig að við í stjórnarandstöðunni ráðum ekki för. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir, bæði hér í þinginu og opinberlega, að frumvarpið sé helsta baráttumál hennar og það mál sem hún vilji helst keyra í gegnum þingið fyrir þinglok. Ég var á göngu á Austurvelli í gær og þá vatt sér að mér maður sem sagði: Hvernig er það með ykkur þarna á þinginu, nú er þingstörfum að ljúka, það er ekkert að gerast og það eina sem þið gerið er að þvæla um eitthvert stjórnlagaþing, mál sem gengur út á það að fjölga þingmönnum um 25 eða 30? Hvernig stendur á þessu? Er það virkilega svo að þingið telji brýnasta úrlausnarefni dagsins að fjölga þingmönnum um 25–30 á meðan eldarnir brenna hjá heimilunum og fyrirtækjunum í landinu?

Ég gat nú ekki tekið þetta til mín vegna þess að ég ber ekki ábyrgð á þessu frumvarpi frekar en Sjálfstæðisflokkurinn, en öðrum þræði gengur frumvarp hæstv. ríkisstjórnar út á að fjölga þingmönnum um 25–30. Eins og ég sagði áðan held ég að við ættum að snúa okkur að öðrum viðfangsefnum. Ríkisstjórnin ætti að breyta forgangsröðuninni, ræða önnur og brýnni viðfangsefni sem bíða úrlausnar, í stað þess að einbeita sér að þessu máli. Þess vegna tek ég undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir að ábyrgð þingsins sé mikil. En mér finnst að ríkisstjórnarflokkarnir sýni ákveðið ábyrgðarleysi með því að tefla þessu máli fram og leggja á það svo mikla áherslu sem raun ber vitni.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið þeirrar skoðunar lengi að það sé nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni. Ég hef tekið þátt í umræðum um breytingar á stjórnarskránni oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, til að mynda á vorþingi 2009 þar sem einmitt var rætt um stjórnlagaþing. Þá vildum við sjálfstæðismenn breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar til að greiða fyrir því að hægt væri að breyta stjórnarskránni með sveigjanlegri og auðveldari hætti en stjórnarskráin kveður á um núna. Á það var ekki fallist af þeirri ríkisstjórn sem þá sat og situr raunar enn þá. En ég er einlæglega þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni. Ég hef kynnt mér hana afskaplega vel, bæði í tengslum við menntun mína og fyrri störf, og það er alveg augljóst að hún er að mörgu leyti barn síns tíma. Ég get t.d. nefnt ákvæði II. kafla stjórnarskrárinnar sem varðar embætti forseta Íslands. Ég held að það sé augljóst mál að þar eru ýmis ákvæði sem þarfnast endurskoðunar og í rauninni þarf að endurskrifa allan kaflann. Ég nefni sem dæmi 11. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að forseti lýðveldisins sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Atburðir síðustu ára bera því hins vegar vitni að forsetinn er kannski ekki alveg ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Hann hefur í seinni tíð beitt valdi sínu í ríkari mæli en menn ef til vill reiknuðu með þegar stjórnarskráin var samin.

Að sama skapi höfum við bent á að ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar sé barn síns tíma en það mælir fyrir um að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Við vitum það sem fylgjumst með þeim samningum sem íslenska ríkið gerir við önnur lönd að forsetinn kemur sjaldnast þar nærri, heldur eru það aðrir sem standa í slíkum samningaviðræðum og undirrita samninga þar um, eins og Icesave-málið er gott dæmi um.

Helsta bitbeinið í umræðu milli Sjálfstæðisflokksins og til að mynda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, um breytingar á stjórnarskrá á síðustu árum, hefur snúið að 26. gr. stjórnarskrárinnar, þeirri spurningu hvort forseti lýðveldisins eigi að hafa vald til að neita lögum staðfestingar. Við höfum sagt það í Sjálfstæðisflokknum að við teljum að það sé eðlilegt að á þessu sé gerð breyting, a.m.k. að menn hugi að því hvort núverandi fyrirkomulag sé það heppilegasta. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna brugðust ókvæða við þegar við nefndum þetta á sínum tíma þegar svokallað fjölmiðlamál var til umfjöllunar og (Gripið fram í.) forsetinn synjaði þeim lögum staðfestingar. Það var hins vegar athyglisvert að það kom annað hljóð í strokkinn hjá þeim ágætu herramönnum sem höfðu barist fyrir tilvist 26. gr. í tengslum við fjölmiðlamálið þegar forseti synjaði Icesave-lögunum staðfestingar.

Það mál og sú grein leiddi til þess að ekki náðist niðurstaða í þeirri stjórnarskrárnefnd sem stofnað var til undir formennsku Jóns Kristjánssonar, fyrrverandi hv. þingmanns og fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Það var baráttan um 26. gr. Ég hygg að afstaða manna til þeirrar greinar hafi nú breyst í kjölfar atburða sem ég nefndi áðan. En það eru auðvitað fjölmörg önnur atriði í stjórnarskránni sem þarf að endurskoða. Ef menn skoða t.d. V. kaflann er þar vikið að dómsvaldi. Hvergi í stjórnarskránni er minnst á að Hæstiréttur Íslands sé ein helsta valdastofnun landsins, það er ekkert minnst á Hæstarétt Íslands í stjórnarskránni. Taki menn stjórnarskrána til endurskoðunar hljóta þeir sem það gera að reyna að finna Hæstarétti stað. Reyndar er vikið að hæstaréttardómurum í lokamálslið 61. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt er fyrir um að veita megi dómara lausn frá embætti þegar hann er orðinn fullra 65 ára en hæstaréttardómarar skuli eigi missa neins í af launum sínum. Það er því kjaraákvæði hæstaréttardómara í stjórnarskránni sem er í raun eina vísbending stjórnarskrárinnar um að hér á landi sé Hæstiréttur.

Þetta eru nokkur dæmi um atriði sem ég tel að sé mjög nauðsynlegt að ráðist verði í að endurskoða. Síðan eru auðvitað fjölmörg önnur mál sem þarf að skoða, eins og áhugamenn um auðlindaákvæði hafa nefnt. Menn hafa rætt það hvort koma eigi upp millidómstigi og fleiri atriði hafa verið nefnd í þessu sambandi sem auðvitað þarf að skoða í tengslum við stjórnarskrána.

Það er algjörlega rangt að við sjálfstæðismenn höfum verið dragbítar á allar stjórnarskrárbreytingar. Ég hygg að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi hafi unnið meira í því að leggja til tillögur og standa að breytingum á stjórnarskránni en Sjálfstæðisflokkurinn. Það þekkjum við frá endurskoðun stjórnarskrárinnar þegar gerð var breyting á kjördæmaskipaninni, svo ekki sé talað um þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskrifaður sem flestir eru sammála um að hafi tekist býsna vel. Það var gert undir forustu Sjálfstæðisflokksins, undir forustu nefndar sem Geir H. Haarde, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, stýrði í góðri samvinnu milli allra flokka á Alþingi. Það var auðvitað grundvöllurinn að því að mönnum tókst að leiða það mál til lykta. En eins og staðan er núna hafa stjórnarflokkarnir ekki haft neinn áhuga á því eða neitt frumkvæði að því að hafa samráð við stjórnarandstöðuna, hvorki Sjálfstæðisflokkinn né aðra stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu, um sameiginlegar línur um það hvernig breyta megi stjórnarskrá.

Það sem mér hefur alltaf þótt einkennilegast við hugmyndir um stjórnlagaþing sem slíkt er að í þeirri hugmynd felst í grunninn tillaga um breytingu á grundvallarreglunni sem nefnd hefur verið reglan um þrískiptingu ríkisvaldsins. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir að Alþingi og forseti Íslands fari með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnarvöld, samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum, fari með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið. Þetta þýðir að þingið fer með löggjafarvaldið ásamt forsetanum eins og gerð er grein fyrir í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar menn eru hins vegar að tala um að stofna stjórnlagaþing eru þeir í rauninni að leggja það til að stofnað verði nýtt stjórnlagaþing til hliðar við það sem fyrir er. Mín skoðun sem þingmaður á þessu stjórnlagaþingi er að það sé hlutverk þessa stjórnlagaþings að gera breytingar á stjórnarskrá. Ég get alveg fellt mig við þá tillögu sem kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar, sem undir rita hv. þm. Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal, að kosin verði níu manna nefnd til að vinna að breytingum á stjórnarskránni. En að stofna nýtt þing, nýtt stjórnlagaþing, við hliðina á því stjórnlagaþingi sem fyrir er, og við erum fulltrúar á, er hugmynd sem ég á ákaflega erfitt með að fella mig við sem þingmaður á þessu þingi, sem alþingismaður sem ber virðingu fyrir þessari stofnun og vill veg hennar sem mestan.

Ég verð að segja að ég furða mig á því að hæstv. forseti Alþingis skuli ekki taka þátt í umræðunni og segja skoðun sína á þeirri hugmynd sem fram kemur í frumvarpinu. Forseti Alþingis á stöðu sinnar vegna að gæta að virðingu og stöðu þingsins í samfélagi okkar og þjóðskipulagi. Þegar fram kemur hugmynd um að stofnað verði nýtt stjórnlagaþing til hliðar við það stjórnlagaþing sem fyrir er hlýtur sá forseti sem er forseti okkar allra og forseti þingsins og ber að gæta að virðingu og stöðu þingsins í samfélaginu að hafa á því skoðun. En því miður er það nú þannig að sá hæstv. forseti sem stýrir hér málum hefur ekki sagt skoðun sína á málinu. Ég lít reyndar svo á að stöðu sinnar vegna geti sá forseti sem nú situr í forsetastóli ekki stutt það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. En ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti muni taka þátt í þessari umræðu og segja skoðun sína á því sem þar kemur fram.

Það hefur komið fram í umræðunni að þeir sem hafa talað fyrir frumvarpinu, og þá kannski helst hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, hafa sagt að með því sé verið að svara þeirri kröfu sem fram hefur komið í samfélaginu um að efnt verði til stjórnlagaþings. Mér er vel kunnugt um að sú krafa hefur komið fram. En ég er ekki viss um að þeir sem hafa gert þá kröfu séu sammála því að með þessu frumvarpi sé verið að koma til móts við þá kröfu. Ég hef skilið það þannig að þeir sem vilja að efnt verði til stjórnlagaþings vilja að ákvarðanir og samþykktir þess þings séu bindandi en ekki bara ráðgefandi. Og það hefur auðvitað verið staðfest af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að hann, og þá væntanlega aðrir fylgismenn frumvarpsins, telur að verði boðað til stjórnlagaþings á grundvelli frumvarpsins, það leggi fram einhverjar tillögur sem miða að því að breyta stjórnarskránni og þær verði teknar til umfjöllunar á þinginu, séu hvorki hann né aðrir þingmenn bundnir af áliti stjórnlagaþingsins. Þeir geta þar af leiðandi gert það sem þeim sýnist við þær tillögur sem þaðan koma, í samræmi við sína samvisku.

Þetta leiðir til þess að stuðningurinn við málið á þinginu er ekki mikill eins og þátttakan í umræðunni sýnir. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs taka t.d. ekki mikinn þátt í umræðunni og það sama má segja um þingmenn Samfylkingarinnar. Þeir sem kannski ganga lengst í því að mæra frumvarpið segja, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði í gær, að frumvarpið sé skárra en ekkert og þess vegna beri okkur að samþykkja það. Það er ekki mikil sannfæring fyrir málinu en ég ítreka að það er mikilvægt að við ræðum þetta, það er mikilvægt að við komum okkur saman um með hvaða hætti við viljum breyta stjórnarskránni. Við erum öll sammála um, hygg ég, að það er nauðsynlegt að gera það. Ég styð þá leið sem kemur fram í áliti 1. minni hluta allsherjarnefndar, að stofnuð verði níu manna nefnd, stjórnarskrárnefnd, til að búa til hugmyndir sem við getum unnið með. Ég held að sú leið sé einfaldari í framkvæmd, svo ég tali nú ekki um miklu kostnaðarminni en sú leið sem hér er lögð til. Það er ljóst að kostnaður við þetta stjórnlagaþing mun nema hundruðum milljóna króna og ég furða mig á því að ríkisstjórn sem í öðru orðinu boðar frystingu launa opinberra starfsmanna til 2013, mikla kjaraskerðingu, skattahækkanir, niðurskurð og ég veit ekki (Forseti hringir.) hvað telji sig hafa fjármuni til þess að ráðstafa (Forseti hringir.) í þetta verkefni sem hægt er að leysa með miklu ódýrari hætti.