138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:34]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir mjög áheyrilega og yfirgripsmikla ræðu. Ég hef áður komið upp og tjáð mig um það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég hef talað um það í allsherjarnefnd og sagt þar álit mitt svo ég ætla ekki að fara út í þá sálma í þessu andsvari. Ég ætla að víkja að kafla í ræðu hv. þingmanns sem var sérstaklega áhugaverður þegar hann velti fyrir sér orðinu stjórnlagaþing.

Í raun og veru er ekkert fyrirbæri til í íslenskri sögu sem heitir stjórnlagaþing. Við vitum ekki nákvæmlega um hvað við erum að tala. Að þinga merkir að ræða mál, væntanlega til að komast að niðurstöðu. Þing merkir svona hér um bil umræðuvettvangur sem leiðir væntanlega til niðurstöðu.

Sú hugmynd sem prófessor Njörður P. Njarðvík rithöfundur hefur sett fram, og er mjög samhljóma því sem ég setti fram í allsherjarnefnd, gengur út á það að fengin verði utanþingsnefnd til að yfirfara stjórnarskrána. Í umboði þeirrar nefndar verði tekið fram að hún skuli halda stjórnlagaþing um allt land, þ.e. þing, (Forseti hringir.) umræðuvettvang þar sem allir geta komið saman þótt þeir séu ekki kjörnir fulltrúar.