138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:39]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Það ber greinilega ekki mikið í milli hugmynda hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og mín og þeirra sem hafa látið í ljós þá ósk að skipuð verði nefnd. Ég vil taka fram að að mér vitanlega hefur enginn minnst á nefnd sérfræðinga. Ég veit ekki hvaða skepnur það eru, sérfræðingar, og í hverju þeir ættu að vera sérfræðingar, heldur væri þetta bara nefnd hugsandi manna sem Alþingi treystir til verksins.

Frumvarpið sem hér liggur fyrir virðist vera alveg hugmyndasnautt varðandi hvað stjórnlagaþing merkir, að það sé ekki hægt að þinga um hluti eins og stjórnlög og stjórnarskrá án þess að gera það í einhvers konar eftiröpun af Alþingi Íslendinga sem er alveg af og frá. Ég veit náttúrlega ekki hverja skoðun einn ágætur maður sem sat lengi á þingi og setti mikil spor í íslenska stjórnmálasögu mundi hafa á þessu máli en ég ætla að nota hans orðalag og ég segi: Stjórnlagaþing er þar sem tveir eða fleiri koma saman til að ræða stjórnlög alls staðar hvort sem það er í eldhúsinu heima hjá einhverjum eða á Þingvöllum. Það er slík umræða sem verður að vera grundvöllur nýrrar stjórnarskrár fyrir lýðveldið okkar. Það eru færir menn sem eiga að sía þá (Forseti hringir.) umræðu og færa hana í letur.