138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að ég held að það beri ekki mikið í milli okkar tveggja í umræðum um þetta. Ég er alveg sannfærður um að ef ég og hann og nokkrir fleiri mundum setjast niður og gera atlögu að því að endurskoða stjórnarskrána þá mundi okkur ganga það örugglega ágætlega. Það væru ýmsir álagspunktar í þeim samningaviðræðum þar sem meiningarmunurinn væri annaðhvort einhver eða mikill. Gott og vel, þá gætu menn tekist á um þann ágreining. Ég held að í grunninn ættum við að geta náð niðurstöðu. Það tel ég að menn ættu að geta gert í þeirri níu manna stjórnarskrárnefnd sem hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal leggja til í nefndaráliti sínu eða á grundvelli þeirrar tillögu sem hv. Þráinn Bertelsson mælir fyrir. Vandinn er hins vegar sá að það hefur ekki verið haft samráð við alla stjórnmálaflokka, það hefur ekkert verið talað við Sjálfstæðisflokkinn. Ríkisstjórnin hefur engan áhuga á málamiðlunum eða leita einhverra leiða til að ná samningum um málið. Þess vegna erum við í þessari stöðu.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að kalla þá samkomu þar sem menn þinga um stjórnlög, stjórnlagaþing, eins og það er ekkert því til fyrirstöðu að kalla þjóðfundinn þjóðfund þrátt fyrir að það hafi verið fulltrúafundur. Öll þjóðin var ekki á þeim fundi en menn kölluðu hann þjóðfund. Aðalatriðið varðandi setningu stjórnlaga og breytingar á stjórnarskrá er að Alþingi Íslendinga hafi lokaákvörðun um það með hvaða hætti stjórnarskráin er og þær reglur sem hafa réttaráhrif gagnvart borgurunum í landinu. Þetta er stofnun sem á að (Forseti hringir.) kveða á um hvernig þær reglur eru, hvort sem þær varða stjórnskipan (Forseti hringir.) eða þau mannréttindi sem stjórnarskrár kveða á um.