138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[16:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þingmanns. Ég held nefnilega að vaktar hafi verið upp algerlega óraunhæfar væntingar um eitthvað sem menn hafa nánast í áróðursskyni kallað lýðræðisumbætur. Því eins og ég var að reyna að færa rök fyrir í máli mínu áðan er stjórnlagaþing, eins og þarna er gert ráð fyrir, auðvitað bara umræðuvettvangur þar sem krafa er um að menn komist að einni niðurstöðu. Í raun og veru er ekki verið að brjóta í blað í einhverri lýðræðislegri umræðu eða lýðræðislegri uppbyggingu í samfélagi okkar.

Sem gamall íhaldsmaður hef ég að vísu slegið ýmsa varnagla við hugmyndum um þjóðaratkvæði en ég geri mér grein fyrir því að þetta er auðvitað krafa tímans. Með þjóðaratkvæði getum við líka leyst með eðlilegum hætti úr erfiðum deilumálum sem er mjög erfitt fyrir okkur að leysa með öðrum hætti og geta t.d. lotið að aðild okkar að alþjóðlegum sáttmálum og samningum, stórum málum o.s.frv.

Hitt er líka sem ég held að skipti gríðarlega miklu máli að menn átti sig á og það er að aðstæður til að kalla eftir sjónarmiðum fólks í þjóðfélagi okkar eru orðnar allt aðrar með því fjarskiptakerfi sem við höfum, tölvusamskiptum og síðast en ekki síst möguleikum okkar á að kalla fólk til funda, íbúafunda og þjóðfunda, og það er ekki tilviljun að sveitarfélög beita þessu í vaxandi mæli. Þegar þau takast á við skipulagsmál er nánast undantekningarlaust reynt að hafa tiltölulega opna íbúaumræðu og það eru einhverjir slíkir hlutir sem við þurfum að sjá. Að öðru leyti eru ýmsir þættir stjórnarskrárinnar sem ég gæti ítrekað að ég telji að þurfi breytinga við. (Forseti hringir.)