138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[16:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ábyggilega rétt að ýmsir hafa ímyndað sér að svarið við þeim vandamálum sem við höfum glímt við upp á síðkastið sé það sem menn hafa kallað lýðræðisumbætur. Ég ætla mér ekki þá dul að ímynda mér að ég tali fyrir hönd þjóðarinnar í þeim efnum en þó held ég að ég sé ekki fjarri því sem þjóðarsálin hugsar þegar ég segi að ég hafi ekki átt von á því að þegar krafan reis um eitthvað sem menn kölluðu lýðræðisumbætur hafi menn ímyndað sér að hægt væri að fullnusta henni með því að kalla saman um fáeinna mánaða eða vikna skeið, eða hvað það er, 25–30 einstaklinga til að setja á málstofu um það hvernig þeir vildu hafa stjórnarskrá. Það er í raun og veru það sem er verið að gera. Þetta er málstofa, stoppistöð í umræðunni um það hvernig við viljum gera breytingar á stjórnarskránni. Það er allt sem þetta gengur út á. Þess vegna eru menn að búa til gríðarlegar umbúðir utan um sáralítið. Það eru ótal aðferðir, eins og ég rakti áðan, til að virkja almenning í þessari umræðu og það hygg ég að almenningur hafi fremur verið að kalla eftir. Það er það sem menn eru að gera í stórum stíl. Menn þurfa ekki að telja sig vera að finna upp nýtt hjól eða finna upp hjólið í þessum efnum. Það er ekki þannig. Þetta eru menn að gera án þess að hafa til grundvallar einhverja lagasetningu um stjórnlagaþing.

Síðan þarf að taka á ýmsum málum. Við erum t.d. smám saman að taka yfir alls konar alþjóðlega sáttmála sem út af fyrir sig hljóta að vekja upp spurningar sem lúta að fullveldi okkar. Það er hlutur sem við þurfum nauðsynlega að takast á við nú þegar í stjórnarskránni, hvort sem menn ganga í Evrópusambandið eður ei.