138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili því með hv. þm. Kristjáni Júlíussyni að það þarf alltaf að fara vel með peninga og ekki síst á dögum eins og þeim sem við lifum í dag. Ég tel að þeim peningum sem varið er til þess að endurskoða stjórnarskrá Íslands sé vel varið því að ég tel mjög nauðsynlegt að við höfum góða stjórnarskrá. Ég heyri að hv. þingmaður er sammála mér um það. Hv. þingmaður virðist líka vera nokkuð sammála mér um að það gæti verið ágætt að fjarlægja þessa umræðu um stjórnarskrána nokkuð frá hinu daglega þrasi stjórnmálanna og það gleður mig að heyra.

Það er eitt sem mig langaði til að nefna, af því að hv. þingmaður sagði að það væri búið að skaffa stjórnlagaþingi störf með því að telja upp í 3. gr. þau atriði sem þar ætti að ræða. Það er ekki svo, meira að segja er bætt við þennan lista í breytingartillögum við frumvarpið. Það er þó ekki vegna þess að ætlunin sé að segja stjórnlagaþinginu fyrir verkum, vegna þess að ég fyrir mína parta tel aðalsetninguna í 3. gr. vera þessa, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaþing getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er í 1. mgr.“

Ég tel þetta grundvallarsetningu í 3. gr. frumvarpsins og í raun um stjórnlagaþingið.