138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:33]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég verð enn einu sinni að lýsa mig sammála hv. þingmanni um að þetta hefði vissulega mátt gera fyrr. Þegar maður kynnir sér sögu gerðra frumvarpa um meðferð fjármála ríkisins, fjárlagafrumvörp, athugasemdir sem þingmenn úr öllum flokkum hafa gert og athugasemdir Ríkisendurskoðunar og fleiri aðila þá er alveg ljóst að þetta er eins í dag og var fyrir nokkrum árum. Það sem mér finnst svo umhugsunarvert er að engin breyting verður á þrátt fyrir að við höfum lent í þessum gríðarlega skelli. Engin breyting verður á þegar við þurfum mest á því að halda að endurgera alla þessa ferla.

Af því að ég nefndi áðan möguleikana á því hvernig framboðum til þessa stjórnlagaþings yrði háttað og nefndi að sú staða væri uppi í íslensku samfélagi að lengi hefði verið töluvert mikið atvinnuleysi, þá er bara eitt praktískt úrlausnarefni sem ég hef ekki enn fengið neinar skýringar á: Hvernig ætla menn að standa að því að útbúa þennan kjörseðil? Ég spái því nú ekki að allir þeir 15.000 sem skráðir eru á atvinnuleysisskrá verði á honum en þótt það væru ekki nema nokkur hundruð manns þá er það viðfangsefni sem ég hef ekki enn séð neina lausn á. Kannski liggja til grundvallar þessari tillögu líka upplýsingar um mögulegt mat á því hversu margir munu gefa kost á sér og þá leysist það væntanlega farsællega ef þetta mál gengur fram. En ég legg áherslu á það að skoðun mín er sú að ég treysti því að stjórnlagaþingið verði ekki að veruleika (Forseti hringir.) í þessu formi.