138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðuna, að mörgu leyti nokkuð samhljóða ræðu sem ég flutti hér í gær varðandi kostnaðarliðinn og annað. Nú liggur fyrir að mikill kostnaður fylgir því að kjósa til stjórnlagaþings. Eins og kom fram í umræðum taldi formaður allsherjarnefndar það vera vanáætlað að stjórnlagaþing mundi kosta 500 milljónir og var rætt hér í gær í fúlustu alvöru í ræðum að þetta færi allt upp í 1.000 milljónir. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Finnst honum ástæða til að láta Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vita að hér sé verið að setja lög sem beri svo mikinn kostnað í sér? Ég tel að það hafi ekki verið gert því að það er hvergi minnst á stjórnlagaþing í fjárlögum fyrir árið 2010.

Svo að hinu sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni: Nýliðnar sveitarstjórnarkosningar voru mjög merkilegar að ýmsu leyti því að þar spruttu fram ný framboð sem náðu hreint ótrúlegum árangri, ekki bara í Reykjavík með Besta flokknum heldur líka óbundið framboð á Akureyri. Þótt það framboð hafi verið áður var það nýtt fólk, eins og hér í Reykjavík, miklir róttæklingar, fólk sem vill bylta því kerfi sem hefur verið við lýði. Sér hv. þingmaður fyrir sér að það verði kannski svona spútnikkar sem hljóta kjör á stjórnlagaþing, verði það? Listamenn, íþróttahetjur, fréttamenn og aðrir eru framar í kynningarmálum eins og hv. þingmaður kom inn á. Komum við kannski til með að sjá hér allt öðruvísi týpur en núverandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) reiknar með? Það er jú alltaf ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á þessu frumvarpi (Forseti hringir.) og því stjórnlagaþingi sem verður.