138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svörin, mjög gagnmerk svör. Það verður kannski svo að þeir aðilar sem ríkisstjórnin sækist eftir að fá í þetta, fræðimenn, lagaprófessorar, stjórnskipunarfræðingar og aðrir, sækist mjög eftir því að setjast á stjórnlagaþing en það verði samt sem áður úrslit kosninganna að akkúrat hið svokallaða fræga fólk, skemmtikraftar, leikarar og íþróttastjörnur, verði kosið inn á stjórnlagaþing. Að vissu marki er það náttúrlega þjóðin sem á að kjósa inn á stjórnlagaþing a.m.k. 25 fulltrúa þó að ríkisstjórnin leggi það til í frumvarpinu að halli á annað kynið sé hægt að bæta við fulltrúum þar inn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er ekki skynsamlegra, svo að við fáum kannski fræðimennina örugglega inn á stjórnlagaþingið, að með einhverju móti verði farin leið hv. þm. Þráins Bertelssonar, að það verði annaðhvort kosið eða skipað í nefnd og nefnd rannsóknarnefndar Alþingis höfð til hliðsjónar? Það heppnaðist einstaklega vel. Þá komst Alþingi að þeirri niðurstöðu að fá fræðimenn til að vinna ákveðið verkefni, kom svo hér inn með heila skýrslu. Þingmaðurinn fór örlítið yfir þetta áðan, að Alþingi ætti að sjá um þetta sjálft, að búa til nýja stjórnarskrá og hafa til þess aflfærustu sérfræðinga. Ég hef meira að segja viljað sækja slíka vinnu sérfræðinga til þjóðþinga annarra norrænna landa.

Það liggur fyrir að neitunarvald forseta er ekki orðið vandamál þarna inni því að nú vilja allir flokkar afmá það úr stjórnarskrá að því uppfylltu að það sé hægt að hafa öryggisventil með því kannski að þjóðin eða minni hluti þingmanna fái að vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Mig langar aðeins til að spyrja hv. þingmann um það sem ég kom inn á fyrst í andsvarinu, þ.e. að almenningur velji (Forseti hringir.) inn á þingið en ekki stjórnvöld og að það sé sem sagt ekki víst að þeir sem þurfi að vera á stjórnlagaþingi (Forseti hringir.) verði þar.