138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[19:03]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir þau ummæli að tillaga mín í þessu máli sé alls ekki slæm. Ég er ánægður með stuðning þó að lítill sé. En mig langar aðeins að gera að umtalsefni það sem hv. þingmaður fór inn á í ræðu sinni, sem var mjög áhugaverð, hvernig við getum beinlínis breytt stjórnarskránni sem er mjög spennandi að ræða og upplyfting frá því að tala bara um stjórnlagaþing. Þessi hugmynd um að setja í stjórnarskrá að reka ríkið skuldlaust, þ.e. með skuldlausum fjárlögum, er allrar athygli verð. Þessi hugmynd sýnir að það er fullt af góðum hugmyndum sem bíður umfjöllunar og umræðu. Mér finnst nú hagfræðimenntun hv. þingmanns svo sem ekki gefa þessari skoðun neitt sérstakt vægi vegna þess að — ég vil taka fram að ég hef ekkert á móti hagfræðingum og jafnvel sumir af mínum bestu vinum eru hagfræðingar en ég verð alltaf hræddur við þá þegar þeir skella yfir sig kápu spámannsins og bjóðast til að segja mér, hugsanlega gegn vægu gjaldi, hvað muni gerast á morgun eða enn þá seinna — ég trúi því ekki að hagfræðingar frekar en aðrir menn sjái fram í tímann.

Hv. þingmaður viðraði líka áhyggjur af því að Besti flokkurinn mundi bjóða fram til setu á stjórnlagaþingi (Forseti hringir.) — er það ekki hið besta mál?