138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[19:05]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að segja að þetta sé athyglisverð hugmynd. Ég benti bara á að ég væri hagfræðingur í því samhengi að ég væri að hugsa um þetta út frá hagfræði, alls ekki að ég hefði eitthvað meira vit á stjórnarskrármálum eða neitt svoleiðis vegna þess að ég væri hagfræðingur. Það er algengur misskilningur að hagfræðingar séu menn sem sjái fyrir framtíðina. Hagfræðingar reyna að skilja verkun hagkerfisins. Ef þessi stærð hreyfist hvað hendir þá þessa stærð og annað slíkt. Það er kannski spádómur í sjálfu sér en það er ekki spádómur um framtíðina. Ég hafna því að þessi merka stétt sem hagfræðingar eru séu einhvers konar seiðkarlar okkar tíma, alls ekki. En ég tek jafnframt undir þau orð um hagfræðinga sem segjast sjá fyrir framtíðina, t.d. menn sem skrifuðu bók árið 1995 og sögðu þá að Ísland væri að hrynja og segja svo þegar það hrundi 2008: Ég sagði ykkur þetta. Það er ekki mikil speki. Á svoleiðis mönnum á maður ekki að taka mark. Það er alveg á hreinu.

Þetta með Besta flokkinn, ég er alls ekki að segja að fólk sem fyllir Besta flokkinn eigi ekki erindi á stjórnlagaþing. Það er alls ekki það sem ég er að segja. Ég er að segja: Getur verið að mannvalið verði hneigt til fólks sem hefur það til að bera að vera þekkt í þjóðfélaginu eða getur verið að það verði fólk sem vill einhvern (Forseti hringir.) veginn taka sig saman, eins og Besti flokkurinn, um að reyna að koma fólki (Forseti hringir.) inn á þingið? Það var raunverulega það sem ég var að benda á. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því samt.