138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[19:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Þetta er 2. umr. og fyrst og síðast er það sem við ræðum endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í ljós hefur komið í þessum umræðum að flestir eru sammála um að endurskoða þurfi stjórnarskrána sem skipt er í sjö kafla og svo einar fjórar greinar sem tilheyra engum köflum en fjalla um skattamál og sveitarfélögin og svo 79. gr., með hvaða hætti við breytum stjórnarskránni.

Frú forseti. 3.–30. gr. fjalla um forsetaembættið og vöktu áður deilur og þá helst 26. gr., en nú virðast flokkar hafa getað sammælst um að henni beri að breyta. Það verður að segjast að það er dálítið skondið að stjórnmálamenn úr öllum flokkum geti nú sameinast um þá breytingu vegna þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar fundu það á eigin skinni hvað það er þegar hæstv. forseti beitir 26. gr. stjórnarskrárinnar. Þá allt í einu, þegar stjórnmálamenn finna það á eigin skinni, er allt í lagi að skoða breytingar á stjórnarskránni.

Þetta er kannski almennt ríkjandi viðhorf, frú forseti, og við þyrftum kannski aðeins að fara að velta fyrir okkur hvort það sé ekki viðhorf okkar sjálfra, landsmanna, sem ræður mestu um það hverju við viljum breyta og hvenær við viljum breyta.

Krafan um endurskoðun stjórnarskrár hefur verið rík og komið fram margoft en hún hefur kannski aldrei verið ríkari en nú, eftir þau áföll sem dundu yfir íslenska þjóð á árinu 2008. Menn tala um að byggja þurfi upp nýtt samfélag, búa þurfi til nýjan sáttmála fyrir þjóðina, sáttmála sem þjóðin sjálf geti verið sátt við og geti komið að því með einhverjum hætti að búa hann til.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að mér finnst alltaf dálítið sérkennilegt þegar við stjórnmálamenn ræðum á þennan hátt um þjóðina. Þjóðin er þeir einstaklingar sem byggja þetta land. Þeir eru jafnólíkir og þeir eru margir, jafnólíkir og við sem sitjum á þingi því að við erum jú þverskurður þjóðarinnar. En okkur er ekki treystandi til að búa til sáttmála sem „þjóðin“ getur sætt sig við eða einstaklingar í samfélaginu, heldur eiga einhverjir aðrir að taka þann kaleik af þinginu og komast að niðurstöðu sem menn tala hér títt um að þingmenn hafi ekki komist að samkomulagi um. Það vekur furðu mína að þingmenn skuli almennt telja að þverskurður samfélagsins hér og þær ólíku skoðanir sem birtast í ýmsum málum, m.a. í því máli sem við fjöllum um hér, séu hugsanlega ekki til úti í samfélaginu. Það virðist oft sem það muni bæta og breyta öllu ef umræðan verði færð frá alþingismönnum, frá Alþingi sjálfu, yfir til einhverra annarra vegna þess að þeir muni komast að niðurstöðu. Mér finnst þetta sérkennileg nálgun, frú forseti, og ég er henni ekki sammála.

Hvað varðar frumvarpið þá greinir okkur á um hvernig eigi að leiða til lykta breytingar á stjórnarskrá. Við höfum ólíkar skoðanir um það verklag sem við viljum að verði viðhaft. Ég get fallist á það sem fram kemur í áliti sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd, hv. þm. Birgis Ármannssonar og Ólafar Nordal, að skipuð verði nefnd sérfræðinga sem fari yfir það sem gert hefur verið fram til þessa í breytingum á stjórnarskrá, þær tillögur sem fram hafa verið lagðar í gegnum tíðina. Í þessum sérfræðingahópi geta verið lögfræðingar og læknar, siðfræðingar, heimspekingar, hagfræðingar, leikarar, hinn almenni maður, hvernig svo sem fólk telur æskilegast að velja þar inn. Sú nefnd gæti hins vegar kallað til samráðs og viðtals á þann hátt sem hún telur skynsamlegast alla þá sem hún telur að dýpka muni og veita betri og víðari sýn á það með hvaða hætti einstaklingar í þessu landi, þjóðin sjálf, kjósa að breyta stjórnarskrá sinni. Við hljótum, frú forseti, að þurfa að leggja upp með einhver drög til að hægt verði að komast að einhverri niðurstöðu. Að setja eitt stórt núll-mengi í slíka umræðu þjónar engum tilgangi.

Með því að slíkir sérfræðingar hafi val um að kalla til alla þá sem þeir telja að dýpkað geti umræðuna og komið með fleiri sjónarhorn gætu þeir hugsanlega komið fram með drög að nýrri stjórnarskrá sem þeir legðu þá fyrir Alþingi sjálft, sem gæti tekið á þeim drögum, farið yfir þau og sammælst um að taka til þess hálfan mánuð og ræða ekkert annað á meðan. Síðan þarf eins og alltaf að leggja breytingar á stjórnarskrá fyrir þjóðina og þá á, frú forseti, þrátt fyrir að það sé ekki gert samkvæmt gildandi stjórnarskrá nema með alþingiskosningum, að gera þeim breytingum hátt undir höfði þannig að okkur, kjósendum öllum, sé ljóst að við erum ekki eingöngu að kjósa til Alþingis heldur kannski fyrst og síðast um nýja stjórnarskrá og nýja þingmenn til að taka á þeirri stjórnarskrá sem þjóðin væntanlega vill að verði hennar.

Þetta er það vinnulag sem mér hugnast og þetta er það vinnulag sem ég, af djúpri sannfæringu, tel að geti heppnast, en það er ljóst að flutningsmenn frumvarpsins og meiri hluti allsherjarnefndar eru ekki þeirrar skoðunar og þar greinir á. En það er ekki svo þegar menn greinir á um verklag að skoðanir þess sem er andvígur því frumvarpi eða því nefndaráliti sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur fram séu einskis virði, eigi ekki að heyrast og þeir sem leyfa sér að tala í málinu séu með málþóf.

Frú forseti. Vegna þess að þegar hefur verið rætt um að sá flokkur sem ég sit á þingi fyrir, Sjálfstæðisflokkurinn, sé mesti dragbítur allra flokka á breytingar á stjórnarskránni vil ég að það komi fram að ég hafna alfarið þeirri fullyrðingu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og tel hana fráleita og makalausa. Hafi einhver flokkur staðið að stjórnarskrárbreytingum í gegnum tíðina er það ekki síður Sjálfstæðisflokkurinn en aðrir flokkar. Mér finnst tímasetningin á 2. umr. um frumvarpið hins vegar vera með þeim hætti að það hvarflar að manni að flutningsmönnum sé engin alvara með því að leggja það fram. Við stóðum hér í svipuðum sporum í lok síðasta þings og ræddum um frumvarp um breytingar á stjórnarskránni, frumvarp til stjórnlagaþings, sem ekki varð að neinu og var samið út af borðinu á nákvæmlega sama tíma og við erum að ræða þetta. Í þinglok, þegar fyrir liggur fjöldinn allur af málum sem skipta verulegu máli fyrir íslenska þjóð, erum við að ræða þetta mál og þeir sem ekki eru sammála frumvarpinu og niðurstöðu meiri hluta allsherjarnefndar eru vændir um málþóf.

Ég tel frekar, frú forseti, að þeim sem leggja þetta frumvarp fram og eru nú fyrst að koma með það til 2. umr. sé lítil alvara með að ná þessu máli í gegn. Þetta hefur verið lengi í allsherjarnefnd og það er mun líklegri skýring að mínu mati að höfundum sé í raun engin alvara með framlagningu frumvarpsins og séu tilbúnir, enn og aftur, að semja það út af borðinu með einum eða öðrum hætti.

Þegar vinstri stjórn tók við 1. febrúar 2009 og aftur þegar vinstri flokkarnir fengu réttan meiri hluta í kosningum í aprílmánuði 2009 og mynduðu ríkisstjórn í maí það sama ár var talað um nýtt Ísland. Það var talað um breytingar á vinnulagi og breytingar á því fyrirkomulagi sem ríkt hefði og að nú ætti að umturna því gamla, hefðbundna, slæma sem gilt hefði.

Forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, sú mæta kona, er 1. flutningsmaður að frumvarpinu en hæstv. forsætisráðherra hefur ekki í fjárlögum ársins 2010 gert ráð fyrir fjármunum til að hægt sé að hrinda í framkvæmd því verkefni sem frumvarpið segir til um. Það segir meira en mörg orð um að ekkert hafi breyst í vinnulaginu. Hér er verið að leggja til að kosið verði til stjórnlagaþings, það er verið að leggja til kostnað á árinu 2010 og væntanlega á árinu 2011, kostnað sem sumir telja að geti orðið allt að 600 millj. kr. án þess að þess sjái stað í fjárlögum 2010. Hversu mikil alvara er að baki slíku frumvarpi ef hæstv. forsætisráðherra gerir ekki einu sinni ráð fyrir fjármunum til verkefnisins á fjárlögum 2010? Ég segi enn og aftur, frú forseti, það er mér til efs að flutningsmönnum frumvarpsins hafi verið alvara með framlagningu þess.

Ég hefði kosið að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, hefði forgangsraðað þeim fjármunum sem þó eru til skiptanna með öðrum hætti en hér er gert. Þótt ég sé sammála því að endurskoða þurfi stjórnarskrána þá vitum við að endurskoðun stjórnarskrár og það að leggja nýja stjórnarskrá í hendur þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar gerist ekki nema við alþingiskosningar. Hér er því verið að fara af stað með verkefni sem ekki er áætlað að klára á árinu 2011 vegna þess að þetta þing var kjörið 2009 og á miðað við fjögurra ára kjörtímabil að sitja til 2013. Kannski á síðan að salta verkefnið eða hver er hugsunin að baki því sem menn eru að gera akkúrat á þessum tímapunkti? (BJJ: Ég skal útskýra það.) Hér kallar hv. þm. Birkir Jón Jónsson fram í að hann sé tilbúinn til þess að útskýra áætlun ríkisstjórnarinnar og frumvarpsframleggjenda. Það verður fróðlegt að heyra það.

Frú forseti. Ég hefði kosið — og ég segi það enn og aftur — að ríkisstjórnin sem nú situr og hefur sagst vilja standa vörð um þjóð sína, um fólkið í landinu, hefði kosið að verja þeim fjármunum sem hér er áætlað að verja til þessa þáttar á annan veg. Ég hefði t.d. viljað sjá hátt í 600 millj. kr. renna til aldraðra eða öryrkja þannig að ekki þyrfti að skerða lífeyri þeirra. Enn þá betra væri ef þeir hefðu farið í það að stoppa í fjárlagagatið.

Frú forseti. Vissulega er endurskoðun stjórnarskrárinnar mikilsverð. Það skiptir máli að við höfum stjórnarskrá sem er í takt við 21. öldina. En það er mér umhugsunarefni að á þeim tímapunkti sem nú er, í lok vorþings, séum við að ræða þetta mál sem ekki einu sinni er gert ráð fyrir með fjármunum í fjárlögum ársins 2010 á meðan hér bíða fjölmörg mál sem að mínu mati — og ég ítreka, frú forseti, að mínu mati — skipta þessa þjóð miklu meira máli en ný stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá ein og sér eykur ekki traust, hún byggir ekki upp nýja velferð, hún styður ekki við bakið á heimilum sem eru í vanda, hún kemur ekki fyrirtækjum í þessu landi af stað, en hún gæti róað einhverja í þá veru að ríkisstjórnin stæði fyrir lýðræðisumbótum, sem eru með vinsælli orðum þessa dagana. Vissulega er þess þörf og margt þarf að skoða í því orði sem lýðræði er. En það hlýtur að skipta meira máli fyrir íslenska þjóð á ögurstundu sem nú að þeir fjármunir sem við höfum úr að spila séu nýttir í þágu þeirra sem á þurfa að halda með einum eða öðrum hætti, en séu ekki nýttir — og ég biðst forláts á næsta orði — í gæluverkefni hæstv. forsætisráðherra í einhvers konar vinsældakapphlaupi vegna þess að lýðum er ljóst að núverandi ríkisstjórn ræður ekki við þau verkefni sem eru á borði hennar, hún verður með einhverjum hætti að slá sér upp á annan hátt. Það er dapurlegt að henda til þess jafnvel 600–1.000 millj. kr.