138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

398. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 frá 26. október 2007, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE.

Meginmarkmið þessarar tilskipunar er að draga úr neikvæðum áhrifum rafhlaðna og rafgeyma og notaðra rafgeyma og rafhlaðna á umhverfið og stuðla þannig að því að vernda, varðveita og bæta gæði umhverfisins. Í henni er kveðið á um markaðssetningu rafhlaðna og rafgeyma. Settar eru fram reglur um bann við markaðssetningu þeirra þegar umræddar vörur innihalda ákveðin hættuleg efni. Einnig eru settar fram sérstakar reglur um söfnun og meðhöndlun, endurvinnslu og förgun notaðra rafhlaðna og rafgeyma til að bæta viðeigandi löggjöf um úrgang og stuðla að söfnun og endurvinnslu notaðra rafhlaðna og rafgeyma.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að æskilegt væri að veita jafnhliða heimild til að fella inn í EES-samninginn síðari breytingu á tilskipun 2006/66 um rafhlöður og rafgeyma og notar rafhlöður og rafgeyma sem felast í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103 frá 19. nóvember 2008 hvað varðar markaðssetningu rafhlaðna og rafgeyma. Nefndin gerir því breytingartillögu þar að lútandi:

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 29. janúar 2010 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 19. nóvember 2008 eru birtar í fylgiskjölum með nefndaráliti þessu.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 frá 26. október 2007 og nr. 7/2010, frá 29. janúar 2010, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB frá 6. september 2006, um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma að því er varðar setningu rafhlaðna og rafgeyma á markaði.

2. Fyrirsögn tillögunnar orðist svo:

Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 141/2007 og 7/2010 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.