138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[21:17]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera grein fyrir nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar í þessu máli. Undir það ritar, auk mín, hv. þm. Ólöf Nordal. Áður en ég fer í efnisatriði nefndarálitsins vil ég taka undir með hv. þm. Róberti Marshall, formanni allsherjarnefndar, að um margt hefur ágæt vinna átt sér stað í þessu máli. Ég held að við höfum náð að greina ágætlega þau ágreiningsmál sem uppi hafa verið í málinu. Við höfum hlustað á sjónarmið um þau og tekið afstöðu til þeirra. Undir það skal tekið.

Í nefndaráliti minni hlutans er gerð grein fyrir því í upphafi og rifjað upp að veigamiklar lagabreytingar hafa náð fram að ganga hér á landi á síðustu árum til þess að bæta réttarstöðu samkynhneigðra, m.a. á sviði fjölskyldu- og sifjamála. Einnig er áréttað að Ísland hefur jafnan verið í hópi þeirra ríkja sem stigið hafa hvað stærst skref á þeirri braut. Við vísum til lagasetningarinnar árið 1996 þegar samkynhneigðum var heimilað að staðfesta samvist sína og laga frá árinu 2006 sem fólu í sér mjög viðamiklar breytingar á mörgum lagabálkum. Þær breytingar fólu í sér að mismunur sem var fyrir hendi í lögum varðandi gagnkynhneigða og samkynhneigða var afnuminn. Loks vísum við til setningar laga nr. 55/2008 þar sem kveðið var á um heimild vígslumanna trúfélaga til að staðfesta samvist. Í áliti okkar segjum við að með þeim lagabreytingum, sem ég hef hér vísað til, hafi að langmestu leyti verið afnuminn sá lagalegi munur sem vissulega var áður fyrir hendi varðandi réttarstöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra í sambandi við fjölskyldumál, fjölskylduform og skyld atriði.

Eins og hv. þingmenn þekkja hafa jafnan orðið miklar umræður um mál af þessu tagi í þjóðfélaginu og oft inni á þingi en niðurstaða þingsins hefur yfirleitt verið í allvíðtækri pólitískri samstöðu. Hún hefur verið niðurstaða ákveðinna málamiðlana þar sem sumir hafa viljað ganga lengra og aðrir skemur. Nú erum við stödd á þeim tímapunkti varðandi lagalega stöðu sambúðarforma að samkvæmt frumvarpi dómsmálaráðherra er gert ráð fyrir að hjúskaparlögum, þ.e. hjúskaparlögum sem gilda um hjúskap karls og konu, og lögum um staðfesta samvist samkynhneigðra sé steypt saman í einn lagabálk, auk þess sem gerðar eru breytingar sem leiða af þessu til lagasamræmingar. Minni hluti allsherjarnefndar styður þessa meginstefnu frumvarpsins og tekur undir að í ljósi þess að hin efnislega réttarstaða sambúðarforma hefur að langmestu leyti verið jöfnuð sé eðlilegt að um þetta sé fjallað í einum lagabálki og að hér eftir gildi ein hjúskaparlög, hvort sem hin formlega vígða sambúð er milli gagnkynhneigðra eða samkynhneigðra. Minni hluta allsherjarnefndar finnst það rökrétt.

Í minnihlutaálitinu segir: Minni hlutinn vekur hins vegar athygli á því að ákveðin álitaefni eru uppi varðandi frumvarpið eins og það liggur fyrir. Þannig er ljóst að umsagnaraðilar hafa mjög ólíkar skoðanir á því hvort nota eigi sömu orð og hugtök yfir hjúskap gagnkynhneigðra og staðfesta samvist samkynhneigðra og hvort ávallt eigi að nota orðið einstaklingur þar sem nú er talað um karl og konu. Jafnframt hefur komið fram mismunandi sýn á það hvort ástæða sé til þess að geta þess með skýrum hætti í lagatexta að vígslumönnum trúfélaga sé heimilt að neita að vígja fólk, gangi það gegn trúarsannfæringu þeirra.

Í álitinu segir jafnframt: Varðandi samræmingu orða og hugtaka í lagatextanum er ljóst að í huga baráttumanna fyrir réttindum samkynhneigðra er um mikilvægt táknrænt skref að ræða. — Ég vil undirstrika að það kom mjög skýrt fram á fundum nefndarinnar. — Að sama skapi er ljóst að innan kirkjunnar og annarra safnaða er mikil andstaða við breytingu í þessa veru sem byggir á trúarlegri sannfæringu. Fyrir liggur að innan þjóðkirkjunnar hefur þessi ágreiningur ekki verið leiddur til lykta og þar eru enn fyrir hendi sterkar fylkingar bæði með breytingum og á móti. Aðrir kristnir söfnuðir, að Fríkirkjunni undanskilinni, leggjast gegn breytingunni og sama má segja um flest önnur trúfélög sem á annað borð hafa tjáð afstöðu sína til málsins.

Þrátt fyrir að hér sé um viðkvæmt mál að ræða, sem snertir djúpa sannfæringu á báða bóga, getur löggjafinn að mati minni hlutans ekki vikist undan því að taka af skarið í þessum efnum. Niðurstaða minni hlutans er að ekki séu efnisleg rök til að nota í lagatexta mismunandi heiti yfir fjölskylduform gagnkynhneigðra og samkynhneigðra. — Er þá vísað til orðanna hjúskapur og hjón. — Minni hlutinn telur hins vegar að löggjafinn geti ekki hlutast til um orða- og hugtakanotkun í vígsluathöfnum safnaða og trúfélaga, enda færi slíkt í bága við trúfrelsisákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.

Því sjónarmiði hefur verið hreyft í umsögnum og á fundum nefndarinnar að ekki sé ástæða til að fella notkun orðanna karls og konu úr lagatextanum og vísa ávallt til einstaklinga, eins og gert er í frumvarpinu. Væri þá notað orðalagið að til hjúskapar geti stofnað karl og kona, karl og karl og kona og kona. Bent hefur verið á að með slíkri breytingu á frumvarpinu væri hugsanlega hægt að koma að nokkru leyti til móts við mismunandi sjónarmið í þessum efnum. Minni hlutinn getur fyrir sitt leyti fallist á þessi sjónarmið og leggur því til breytingu á frumvarpinu í þessa veru.

Hitt meginálitaefnið — fyrir utan þessa orða- og hugtakanotkun sem ég hef nú gert grein fyrir — lýtur að því hvort kveða beri á um það með skýrari hætti en nú er gert að vígslumaður trúfélags verði ekki skyldaður til að framkvæma athöfn sem samræmist ekki trúarskoðunum hans. Ótvírætt er að í núgildandi lögum um staðfesta samvist er vígslumanni heimilt en ekki skylt að vígja samvist samkynhneigðra. Með því að steypa saman hjúskaparlögum og lögum um staðfesta samvist fellur þetta tiltekna ákvæði úr gildi. Verði frumvarpið að lögum gilda því ákvæði núgildandi hjúskaparlaga. Þar er í 22. gr. skýrt að borgaralegum vígslumönnum sé skylt að framkvæma hjónavígslur en ekki er með beinum hætti tekið af skarið um stöðu presta og annarra vígslumanna trúfélaga og safnaða. Í 2. mgr. 22. gr. er einungis kveðið á um að dómsmálaráðherra geti, að fenginni tillögu biskups, sett reglur um það hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslur og hvenær þeim sé það aðeins heimilt. Slíkar reglur hafa ekki verið settar en engu að síður stendur eftir reglugerðarheimildin. Rétt er að undirstrika að sú heimild nær aðeins til þjóðkirkjunnar og ljóst að á þeim grundvelli yrði vígslumönnum annarra safnaða og trúfélaga aldrei gert skylt að framkvæma slíkar athafnir.

Í ljósi þess að verið er að steypa saman þessum lagabálkum og til þess að taka af öll tvímæli og undirstrika að engum vígslumönnum trúfélaga verði skylt að framkvæma athafnir sem kunna að brjóta í bága við trúarsannfæringu þeirra, leggur minni hlutinn til að 22. gr. hjúskaparlaga verði breytt, þannig að ótvírætt komi fram að prestum og öðrum vígslumönnum trúfélaga sé ávallt heimilt, en aldrei skylt, að framkvæma hjónavígslu ef það stríðir gegn trúarlegri sannfæringu þeirra.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Nefndarálitið talar fyrir sig sjálft og sama á við um þær breytingartillögur sem við höfum lagt fram og fela í sér þær tvær efnisbreytingar sem ég hef gert grein fyrir og vona að nái fram að ganga. Ég dreg ekki dul á það, og það mátti eins ráða af orðum hv. formanns nefndarinnar, Róberts Marshalls, hér áðan að þessar breytingar eru vissulega í þá átt að koma til móts við ákveðna gagnrýni sem hefur komið fram á frumvarpið. Ég tel að með því að samþykkja breytingar af þessu tagi sé hugsanlega hægt að draga eitthvað úr ágreiningi þeim sem hefur átt sér stað um þessi atriði, þótt mér og væntanlega öðrum hv. þingmönnum sé ljóst að þar sem um verulega djúpstæða deilu sem varðar trúarlega sannfæringu er að ræða verða sjónarmið trúlega seint samræmd að öllu leyti.