138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. umhvn. (Anna Margrét Guðjónsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fengið á sinn fund fulltrúa umhverfisráðuneytisins, Sigríði Auði Árnadóttur og Glóeyju Finnsdóttur, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Lárus Ólafsson frá Orkustofnun, Kristínu Sigfúsdóttur, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins og Gústaf Skúlason frá Samorku. Þá bárust umsagnir frá fjölda aðila.

Með frumvarpinu er lagt til að úrskurðarfrestur ráðherra verði lengdur vegna kæra sem berast sökum ákvarðana sem tilteknar eru í 1. og 3. mgr. 14. gr. laga um umhverfismat, m.a. ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sem tilgreind er í 2. viðauka sé háð umhverfismati, sbr. 6. gr. laganna og ákvörðun stofnunarinnar um hvort meta skuli matsskyldar framkvæmdir sameiginlega, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Lagt er til að fresturinn verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá og jafnframt verði heimilt að framlengja hann um allt að þrjá mánuði til viðbótar ef mál er umfangsmikið.

Nefndin hefur fjallað um málið og áréttar mikilvægi þess að gætt sé að grundvallarreglu stjórnsýsluréttar um að ákvarðanir í málum er lúta að stjórnsýslunni skuli teknar svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en þessi regla á jafnt við um niðurstöður í kærumálum. Nefndin leggur til breytingu á ákvæðinu til að undirstrika þessi sjónarmið. Þá er rétt að benda á að umsagnaraðilar verða einnig að standa við setta tímaramma.

Fram kemur í frumvarpinu að ef mál er umfangsmikið verði heimilt að framlengja frest til úrskurðar um allt að þrjá mánuði til viðbótar. Nefndin áréttar að ef nota þarf þá heimild þurfi að fylgja slíkri ákvörðun rökstuðningur í ljósi þeirra hagsmuna sem búa að baki svo ekki dragist úr hófi að fá niðurstöður kærumála.

Þau mál sem hér um ræðir eru umfangsmikil og sérhæfð en ákvarðanir er snúa að áhrifum framkvæmda á umhverfið eru í eðli sínu matskenndar og krefjast því mikillar sérfræðivinnu. Í ljósi þess að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga, telur nefndin að skapa þurfi stjórnsýslunni nægilegt svigrúm til að vanda gagnaöflun sína og úrvinnslu til að leggja grunn að réttri og löglegri stjórnvaldsákvörðun. Nefndin fellst því á nauðsyn þess að lengja úrskurðarfrest ráðherra.

Í ljósi reynslunnar telur nefndin rétt að skipaður verði starfshópur til að fara heildstætt yfir málsmeðferð í málum er lúta að mati á umhverfisáhrifum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við 1. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Verði frestur framlengdur ber að skýra aðila frá því. Skal þá rökstyðja ástæður tafanna og upplýsa um hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Vigdís Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Birgir Ármannsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifa Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, Margrét Pétursdóttir og Vigdís Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Birgir Ármannsson og sú sem hér stendur, Anna Margrét Guðjónsdóttir.