138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[21:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er, eins og kom fram hjá hv. framsögumanni, áritað með fyrirvara af hálfu okkar Birgis Ármannssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokks í nefndinni. Eðlilegt er að skýra ástæður þess fyrirvara sem við gerum við afgreiðslu málsins.

Í fyrsta lagi hefur komið fram við umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið sem ráðherra lagði fram að verið er að lengja frest ráðherra til að úrskurða, fremur en að auka málshraðann. Þegar skoðaðar eru umsagnir þeirra sem fengu frumvarpið til umsagnar er mikill samhljómur í þeim. Ef ég dreg það saman í eina setningu, þá er miklu ríkari vilji til að auka málshraðann í þessum efnum, fremur en að lengja hann, og einfalda málsmeðferðina, þ.e. hraða málum með því að einfalda meðferð mála.

Það hefur legið fyrir um langa hríð að ferlið sem byggt hefur verið upp í kringum lög um mat á umhverfisáhrifum er allt of langt og viðamikið. Það kemur fram í umsögn einni sem ég vil leyfa mér að vitna til, með leyfi forseta, og fara orðrétt með:

„Þess eru dæmi um að umsagnaraðilar fái sama verkefnið til umsagnar oftar en 20 sinnum. Umsagnaraðilar virði ekki tímafresti og fara jafnvel út fyrir það svið sem þeim er afmarkað með lögum. Séríslensk lagaákvæði um að unnt sé að krefjast þess að meta eigi saman áhrif framkvæmda sem í raun eru alls ótengdar bæta ekki úr skák.“

Umsagnirnar sem umhverfisnefnd fékk eru mjög samhljóða að þessu leytinu til. Eftir umræður í nefndinni var því sett inn það ákvæði sem framsögumaður gat um, sú breyting sem liggur fyrir, að þess er krafist að ráðuneytinu sé gert að rökstyðja ástæður þess ef um frekari drátt er að ræða.

Enn fremur er það sett inn í nefndarálitið og undirstrikað að mælst er til að lög um mat á umhverfisáhrifum verði endurskoðuð í ljósi athugasemda sem gerðar hafa verið. Það hlýtur að vera eðlileg og sjálfsögð krafa að slíkt verk sé unnið og gera þá kröfu til nefndarinnar að hún fylgi því eftir að svo verði gert.

Ástæður þess að við undirritum nefndarálitið og erum aðilar að því er ósköp einföld. Hún er einfaldlega sú að stjórnsýslan ræður greinilega ekki við þann lagabálk sem hér um ræðir. Fremur en halda öllu í gíslingu þess ástands vildum við frekar reyna að herða skrúfuna að stjórnsýslunni með þessu ákvæði, að skylt sé að rökstyðja ástæðu frestunarinnar, til að ýta á að málum sé hraðað. Í nefndarálitinu kemur jafnframt fram í lokaákvæðinu að í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er verði lögin tekin til heildarendurskoðunar.