138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[22:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að fara í byggingu nýs Landspítala. Ég vil segja í upphafi máls míns að mér hefur fundist málsmeðferðin í hv. fjárlaganefnd vera til fyrirmyndar. Hv. fjárlaganefnd tók það strax þeim tökum að við fórum mjög gagnrýnin í þá vinnu að skoða forsendur fyrir stofnun þessa hlutafélags og eins líka til að meta það út frá því að við værum að fara í eina stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Við þekkjum vinnubrögðin frá byggingu tónlistarhússins, þá var sett ein setning inn í fjárlögin og vísað til 6. gr. fjárlaga.

Í þessu tilfelli var ákveðið að stofna hlutafélag og semja sérlög um framkvæmdina þannig að ég tel, virðulegi forseti, að í þeirri vinnu sem hv. fjárlaganefnd fór í hafi verið staðið vel að verki. Ég vil þó sérstaklega þar sem ég er meðflutningsmaður eða stend að þessu nefndaráliti, sem hv. þingmaður Guðbjartur Hannesson kynnti áðan og fór mjög ítarlega yfir og ég sé ekki ástæðu til að ég geri það einnig, benda á tvennt í þessu ágæta nefndaráliti sem gerir það að verkum að ég styð þetta mál.

Það er annars vegar breytingartillaga, sem er lögð fram af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar, að fyrir undirritun samninga að loknu útboði skuli leita samþykkis með almennum lögum, þ.e. málið komi aftur inn til Alþingis eftir að búið er að fara í þá vinnu að skoða eða greina kostnaðinn og hagræðinguna sem á að vera af verkinu og líka búið að fara í útboðið sem gefur okkur þær rauntölur sem verkið kostar og þar af leiðandi munum við vita hverju hagræðingin af verkinu skilar.

Virðulegi forseti. Hvers vegna er valin sú leið að stofna hlutafélag um þessa framkvæmd? Það er mjög einföld ástæða fyrir því. Hún er sú að með því móti er þessi framkvæmd fyrir utan efnahag eða ekki færð til bókar hjá ríkinu. Það er gert í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að við megum ekki skuldsetja ríkissjóð frekar en orðið er, við höfum ekki bolmagn til þess. En ég verð þó að geta þess, virðulegi forseti, að ég tel að við séum komin mjög langt í því að taka fyrir utan efnahag. Nú þegar, ef þetta verður samþykkt, munum við vera komin með um 110 milljarða sem eru fyrir utan efnahag, sem eru í raun og veru 25% af öllum fjárlögum íslenska ríkisins. Það er mikið umhugsunarefni að gera þetta með þessum hætti.

En forsendan fyrir verkefninu, og það kemur alveg skýrt fram í allri þeirri umfjöllun sem átti sér stað í fjárlaganefndinni og í nefndarálitinu, er sú að hagræðingin af sameiningu spítalanna greiði kostnaðinn við það að fara í framkvæmdina, þ.e. þegar búið er að bjóða verkið út og það verður hugsanlega fjarmagnað af lífeyrissjóðunum eða jafnvel einhverjum öðrum, ekki er loku fyrir það skotið að aðrir geti gert tilboð í að fjármagna verkið. Það kemur fram í gögnum sem við höfum haft undir höndum bæði frá hagdeild Landspítalans og eins frá þeim norsku aðilum sem voru látnir fara yfir tölurnar að hagræðingin af þessari starfsemi sem felst í því að 17 starfsstöðvar Landspítalans í 100 húsum færist á þessa einu starfsstöð muni skila 2,7 milljörðum. En þó er mjög mikilvægt að það komi fram sem kom fram hjá forsvarsmönnum Landspítalans að nú þegar hefur náðst hagræðing upp á 250 milljónir af þessum 2,7 milljörðum þannig að við erum að tala um tæpa 2,5 milljarða í hagræðingu af því að færa starfsemina á einn stað. Nú hef ég engar forsendur fyrir því persónulega að leggja mat á það hvort þetta séu nákvæmlega réttar tölur eða hvað liggur að baki. Það kom hins vegar fram hjá forsvarsmönnum Landspítalans að þeir væru búnir að tilgreina þetta nánast á hverri einustu kennitölu. Þess vegna kemur það líka fram í nefndarálitinu að á meðan menn vinna að forhönnun muni sá tími vera nýttur til að skoða þessar tölur og láta sannreyna að þær standist þá kröfu sem gerð er til þeirra. Ég verð líka að segja, virðulegi forseti, að það er mjög sérkennilegt að mínu viti, þar sem þetta mál er búið að vera í mörg ár í farvatninu, að sá tími skyldi ekki hafa verið nýttur til þess einmitt að kafa ofan í þessar hagræðingartölur þannig að þær væru skýrari. En þetta er hins vegar staðan í dag og það tekur nokkra mánuði að finna þetta út og þá má í raun og veru segja að gangi verkið ekki eftir, þ.e. forsendur verksins eða framkvæmdarinnar, muni vera ákveðinn fórnarkostnaður upp á tæpa 3 milljarða sem við erum þegar búin að eyða hluta af. Það er þá meðvituð ákvörðun mín þegar ég styð þetta mál að ég geri mér fulla grein fyrir því.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að við notum tímann sem fram undan er á meðan forhönnun verksins fer fram til að skoða heilbrigðiskerfið í heild sinni. Hvaða áhrif hefur þessi bygging á heilbrigðiskerfið í heild sinni? Ég tel mjög mikilvægt að það verði líka skoðað út frá því. Það hefur verið nefnt að þetta muni hugsanlega hafa áhrif á t.d. kragasjúkrahúsin eða aðrar heilbrigðisstofnanir í landinu en það eru ekki forsendur eða grunnstoðir í verkefninu sjálfu. Það eru eingöngu þær forsendur að það sé hagræðing í því að setja Landspítalann á eina starfsstöð þannig að það liggi alveg klárt fyrir og allar þær forsendur eru gefnar þannig að það liggi alveg fyrir.

Virðulegi forseti. Ég vildi koma örstutt og gera grein fyrir því af hverju ég er með fyrirvara á þessu máli en ítreka það í lok máls míns að ég tel að hv. fjárlaganefnd hafi unnið vel að málinu og mikil eining ríkt um það í nefndinni og ég styð heils hugar að málið fái framgang.