138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er með mikilli ánægju og gleði sem ég tek þátt í þeirri umræðu sem hér fer fram um nýjan Landspítala. Það er hægt að segja í þremur orðum aðalatriði þessa máls og það er: Töf er tap. Það er kjarni málsins: Töf er tap. Ef við förum ekki í þessa framkvæmd töpum við og ef við tefjum hana töpum við. Það er heildarniðurstaðan. Þetta eru engin ný sannindi, við höfum verið að komast að þessu aftur og aftur við endurskoðun á þessu máli. Töf er tap.

Framsóknarflokkurinn hefur mjög skýra stefnu í málinu. Við ályktuðum á flokksþingi okkar á síðasta ári að halda ætti áfram með uppbyggingu nýs sjúkrahúss, halda ætti áfram með það verkefni. Við ályktuðum um það eftir að hrunið varð þannig að við gerðum okkur fyllilega grein fyrir því að ekki yrði mikið um fjármagn í umferð. Eigi að síður, vegna mjög mikils stuðnings flokksins í gegnum árin við þetta verkefni, ákváðum við að sjálfsögðu að styðja það áfram og ályktuðum að halda skyldi áfram með verkefnið. Búið er að finna leið til að gera þetta verkefni að veruleika þrátt fyrir hrun og vil ég fagna því alveg sérstaklega.

Forsagan er löng og mig langar að geta nokkurra nafna, og ég heyrði að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson gerði það líka. Mig langar að geta þess sérstaklega að Framsóknarflokkurinn á hér mikla sögu en það eiga líka aðrir flokkar. Ingibjörg Pálmadóttir var heilbrigðisráðherra í mörg ár, ég held hún hafi verið með þaulsetnustu heilbrigðisráðherrum í Evrópu á þeim tíma. Hún vann gríðarlegt verk í þessu máli, kom því af stað og var mjög oft með vindinn í fangið í því. Menn rifust t.d. mikið um staðsetningu, hvort þetta nýja sjúkrahús ætti að rísa við Hringbraut, inni í Fossvogi eða á einhverjum allt öðrum stað. En þetta var allt skoðað faglega og menn hófu mikinn undirbúning að nýbyggingunni.

Síðan tók Jón Kristjánsson, sem líka var heilbrigðisráðherra okkar, við keflinu og hélt áfram með þetta verkefni. Hann vann það af mjög miklum heilindum eins og Ingibjörg Pálmadóttir hafði gert og þokaði þessu öllu mjög vel áleiðis. Síðan tók sú er hér stendur við keflinu og hélt áfram undirbúningsvinnunni enda um mjög mikið verk að ræða. Ég man eftir því að ég fór í heimsókn á Landspítala til að hitta starfsfólkið og ræða um þessa nýbyggingu og fann þar gríðarlegan stuðning við bygginguna. Það er ekkert skrýtið af því að þetta er stærsti vinnustaður landsins og hann sinnir okkar veikustu sjúklingum. Þarna fara fram langflóknustu aðgerðirnar og fólkið sem vinnur þar ber mikið skynbragð á hve mikilvægt er að reisa nýtt sjúkrahús og nýta þær byggingar sem fyrir eru og eru góðar og í lagi. Það á ekki bara að byggja nýtt, það á líka að endurnýta það gamla að hluta til. Starfsfólkið stóð heils hugar á bak við þetta verkefni og lagði á sig mjög mikla vinnu við að undirbúa það. Það var gríðarleg vinna í hópum á deildum í svona litlum klösum og kjörnum sem fór fram.

Ég vil líka nefna nafn Alfreðs Þorsteinssonar, sem vann í þessum málum á sínum tíma, og ég vil líka nefna Ingu Jónu Þórðardóttur, sem fékk það verkefni hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þegar hann var heilbrigðisráðherra, að fara yfir það hvort endurskoða þyrfti staðsetninguna við Hringbraut. Sú er hér stendur hafði svolitlar áhyggjur af þessu af því að þarna var kominn einhver svona tafaleikur í gang, að skoða þetta allt frá grunni aftur. En niðurstaðan varð sú að fyrri ákvarðanir væru réttar þannig að halda átti áfram með verkefnið við Hringbraut. Ekki er langt síðan farið var yfir þetta allt saman upp á nýtt og það var undir forustu Ingu Jónu Þórðardóttur. Ríkisstjórnin sem þá var frysti málið reyndar svolítið með því að lækka fjárveitingar til verkefnisins um 700 millj. kr. árið 2008 en ekki var hætt við það, alls ekki. Ég heyri núna að sjálfstæðismenn styðja það áfram og er það vel.

Ég vil líka leyfa mér að nefna nöfn Magnúsar Péturssonar, sem var forstjóri spítalans á sínum tíma, vann mjög mikla undirbúningsvinnu ásamt starfsfólkinu, og svo núverandi forstjóra, Björns Zoëga, sem líka hefur staðið heils hugar á bak við þetta verkefni. Þetta eru þær lykilpersónur sem hafa unnið í þessu máli að ógleymdri Huldu Gunnlaugsdóttur sem á líka mjög mikilvægt verk að baki. Ég ætla að fara yfir það aðeins á eftir þegar ég lýsi því þegar síðast var farið í að endurskoða þessa framkvæmd. Unnið hefur verið að þessu í langan tíma og nú er það komið svo nálægt okkur, það þokast nær, að við erum við það að hefja verkið.

Það sem skiptir líka miklu máli í þessu er að gera sér grein fyrir því að byggingarkostnaður — þó að manni finnist þetta vera háar tölur, 51 milljarður í heildina, 33 í byggingu, 7 í tæki, 11 í endurbyggingu gamalla húsa, eru þær ekki háar ef maður horfir á heildarsamhengi hlutanna og það er að skoða í leiðinni rekstur á spítalanum. Það er reksturinn sem er aðalmálið. Byggingarkostnaður er ekki aðalmálið í þessu samhengi. Byggingarkostnaðurinn næst upp til baka á mjög stuttum tíma af því að hann var svo lágur hlutfallslega miðað við reksturinn. Það má eiginlega lýsa þessu sem skel, að byggingin sé skel. Auðvitað þarf sú skel að vera góð, nýtískuleg, í takt við tímann og allt það, en kostnaður við skelina skiptir litlu máli í heildarsamhengi miðað við sparnaðinn sem fer fram inni í skelinni.

Landspítalinn er mikið fyrirbæri ef ég má nota það orð á jákvæðan hátt, stærsti vinnustaður landsins. Þar vinna um 5.000 manns og þar fara í gegn um 100 þúsund sjúklingar á ári, veikt fólk sem vill fá góða þjónustu. Þetta eru viðkvæmir hópar sem við erum að þjónusta á Landspítalanum. Veikt fólk er viðkvæmt fólk. Margt getur farið úrskeiðis á svona stað en það er ekki mikið sem fer úrskeiðis. Alltaf koma upp einhver álitamál en í heildina séð er þjónustan á Landspítalanum framúrskarandi. Þetta er ekki fullyrt út í bláinn heldur er þetta dómur þjóðarinnar ef mark má taka á skoðanakönnunum.

Ekki er langt síðan gerð var skoðanakönnun á trausti til Landspítalans, traustið mældist 90%. Það getur verið okkur svolítið umhugsunarefni sem sitjum á þessari samkomu af því að traustið til okkar mældist 13% í síðustu Gallup-könnun og 10% í MMR-könnun og þetta þurfum við auðvitað að bæta. En traustið til Landspítalans hefur verið mjög sterkt af því að þar fer fram mikil, öflug og góð þjónusta.

Ég sagði áðan, virðulegur forseti, að skelin þyrfti að vera góð, nýtískuleg og uppfylla kröfur, en það er þannig í dag að hún gerir það ekki. Hún uppfyllti kröfur á sínum tíma en það er langt um liðið. Barnaspítalinn er reyndar nýr og hann er afar góður og hann mun halda áfram hlutverki sínu en í heildina séð þarf að byggja nýtt hús. Mig langar að vitna aðeins í lækna sem vinna á Landspítalanum sem hafa skrifað greinar og það eru Alma D. Möller, Bjarni Torfason og Gunnar Skúli Ármannsson. En Alma D. Möller og Bjarni Torfason segja í grein sinni, sem birtist að mig minnir í Morgunblaðinu — og ég ætla að vitna beint í hana, með leyfi virðulegs forseta. Þau segja:

„Ráðamenn beri gæfu til að flýta eins og kostur er því brýna verkefni að reisa rúmgóðan og sameinaðan Landspítala því aðstaðan er ófullnægjandi núna og mun fara versnandi á þeim árum sem tekur að reisa nýjan spítala.“

Í lokin segja þau:

„Þessi mál þola enga bið.“

Gunnar Skúli Ármannsson læknir skrifaði líka og ég vitna beint í hann:

„Það er í raun mjög alvarlegt að stuðla að seinkun nýbyggingar Landspítalans.“

Læknar sem vinna þarna innan dyra eru mjög ákveðnir í skoðun sinni og það eru hjúkrunarfræðingar líka. Ég vil minna á að bæði Læknafélag Íslands og hjúkrunarráð LSH hafa hvatt til þess að upphaflegar byggingaráætlanir standist, þær eru komnar úr skorðum í dag en þau hvöttu til þess á sínum tíma og hafa alltaf staðið bak við þetta verkefni og hafa viljað að byggingaráföngum verði hraðað.

Í nýju sjúkrahúsi verður aðstaðan öll í takt við nútímaþarfir, aðstaða sjúklinga og starfsfólks mun stórbatna og það er líka óviðunandi að vera að flytja sjúklinga á milli Fossvogs og Hringbrautar og stefna öryggi þeirra í hættu. Með nýju sjúkrahúsi verður líka mikill ávinningur af því að sýkingar verða færri vegna þess að gert er ráð fyrir því að sjúklingar séu í einbýlum með hreinlætisaðstöðu. Þetta eru allt atriði sem lengi hafa verið til umræðu innan Landspítalans.

Virðulegi forseti. Ég hef fært rök fyrir því hve brýnt þetta málefni er og ætla aðeins að víkja að þætti Huldu Gunnlaugsdóttur. Hún var forstjóri Landspítalans um tíma og fékk það verkefni að skoða þessa framkvæmd eftir fall bankans. Auðvitað breyttust forsendur að hluta til og menn þurftu að fara yfir þetta aftur. Hulda Gunnlaugsdóttir, þáverandi forstjóri Landspítalans, leitaði til þessara norsku ráðgjafarfyrirtækja, sem búið er að ræða um, og þau gerðu skýrslu. Aðeins hefur verið tæpt á þessu hér en mig langar að draga þetta skýrt fram. Í þeirri skýrslu átti að meta hvort áformin vegna efnahagsástandsins þyrftu að breytast og hvort unnt væri að áfangaskipta framkvæmdunum. Hvað sagði þá skýrslan sem kom? Jú, að það kostaði íslenskt samfélag meira ef ekkert yrði gert, það væri dýrara og reyndar ekki bara dýrara heldur miklu dýrara eins og það var orðað.

Það var líka annað sem þeir komust að í þessari skýrslu, sem mér þótti vænt um, ég verð að viðurkenna það. Það var það að undirbúningsvinna sem hafði farið fram, og ég hef reynt að rekja hér, hjá öllum þessum ráðherrum og þessum pólitísku öflum — ekki má heldur gleyma Vinstri grænum sem komu inn í ráðuneytið á lokasprettinum nýlega — fékk góða umsögn frá þessum ráðgjöfum. Sú forsenda var og staðfest að miklir fjármunir mundu sparast í rekstrinum með því að leggja af starfsemina í Fossvogi og sameina spítalareksturinn við Hringbraut. Það er því kominn gæðastimpill á undirbúningsvinnuna og mér þótti mjög vænt um það. Ég tel því sérstaka ástæðu til að þakka líka forustuna sem Hulda Gunnlaugsdóttir hafði um það að skoða málið upp á nýtt eftir bankahrunið sem varð til þess að hægt var að áfangaskipta þessu verki, fara í það brýnasta fyrst og lækka þannig kostnað og komast að þeirri niðurstöðu að töf er tap eins og ég sagði í upphafi. Töf er tap. Mín heildarniðurstaða er sú að því fyrr sem við byrjum á þessu verkefni þeim mun betra.

Ég vil að lokum, þar sem tími minn er að renna út, fagna því sem fram kom í máli hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Hann dró skýrt fram í ræðu sinni að málsmeðferðin í fjárlaganefnd hefði verið til fyrirmyndar. Við erum ekki oft að hæla hvort öðru hér á þessum vinnustað. En ég sé ástæðu til að taka undir þau orð þar sem ég trúi því að hann fari þar með rétt mál. Ég hlustaði líka mjög grannt eftir ræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, og lýsi mig í öllum atriðum sammála því sem þar kom fram. Hér hefur verið vandað til verka. Við erum að stíga skynsamleg skref. Vel hefur verið haldið á málum í fjárlaganefnd og verið er að gera breytingar á málinu, það fer ekki óbreytt í gegn og breytingin er veigamikil. Hver er hún? Jú, hér er verið að leggja til lagabreytingu og það er nefndin sem leggur það til, þ.e. að málið verði tekið aftur inn áður en það er endanlega klárað. Málið þarf því að koma aftur inn þegar búið er að undirbúa þetta verkefni frekar og það er eðlilegt. Ég tók líka eftir því að fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd tók sérstaklega undir þetta.

Við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu fyrir hönd Framsóknarflokksins lýsum okkur því mjög fylgjandi að málið verði tekið inn í nefndina, það er mjög til bóta og gefur okkur tækifæri til að fara aftur yfir það. Er hægt að biðja um meira? Ég held ekki. Það er varla hægt að biðja um frekari skoðun á þessu og frekari tök þingsins á þessu þannig að þingið er að taka málið vel að sér. Þetta er ekki gamli stíllinn, þetta er ekki 6. gr. heimild, ein lína, eins og þegar tónlistarhúsið fór í gegn og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson rakti. Þetta er allt annað. Málið kemur inn sem sérlög, farið er sjálfstætt yfir það og það kemur aftur inn á seinni stigum. Ég lýsi mig því fylgjandi málinu og mun greiða því atkvæði. Ég mun gera allt sem ég get til að greiða fyrir þessu, hef gert það í mörg ár og mun halda því áfram. Við framsóknarmenn munum styðja þetta verkefni af heilum hug og höfum mikla trú á því. Við teljum að þjóðin eigi skilið að fá nýjan spítala og að hún muni fá nýjan spítala. Við erum alveg á brúninni að hefja þetta verkefni þannig að þetta er mikið fagnaðarefni. Ég er mjög ánægð með að taka þátt í þessari umræðu þrátt fyrir að seint sé orðið. Það skiptir ekki máli. Aðalmálið er hvað er sagt hérna.