138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Ég hef ýmislegt við þetta mál að athuga þó að ég sé í grunninn sammála því. Ég tel að nauðsynlegt sé að byggja nýjan spítala. Þau sjúkrahús sem við höfum í Reykjavík, og eiga að þjóna landinu, eru komin mjög til ára sinna. Það hafa orðið gífurlegar breytingar í heilbrigðisþjónustu, legudögum hefur fækkað, kviðsjáraðgerðum hefur fjölgað og aðgerðir eru orðnar miklu styttri þannig að menn þurfa að taka mið af því.

Það sem ég hef gert athugasemd við er staðarvalið. Ég er ekki endilega viss um að þetta sé rétti staðurinn ef maður skoðar höfuðborgarsvæðið í heild sinni. Ég held að þessi spítali ætti að vera meira miðsvæðis. Við erum kannski að byggja til 30 eða 40 ára og þessi staðsetning verður alltaf meira og meira út úr ef maður horfir á þróun alls svæðisins. Þetta ætti að vera einhvers staðar í kringum Smáralind eða á því svæði.

Þó að ég sé ekki neinn sérfræðingur í spítölum þá hef ég líka heyrt að menn byggi frekar spítala upp í loftið en út á flatneskjuna vegna þess að stysta leiðin á milli tveggja herbergja er á milli hæða. Menn þurfa að átta sig á því að mikill kostnaður fer í vegalengdirnar því meðan fólkið er að ganga eftir göngum er það ekki að hjúkra, lækna eða að gera eitthvað annað. Þar fyrir utan er það mikið rask fyrir sjúklinga að vera endalaust að keyra fram og til baka. Þetta er það sem ég hef við þetta að athuga.

Svo kemur að fjármögnuninni. Þar set ég kannski helst spurningarmerki. Mér finnst gæta vaxandi tilhneigingar til þess, kannski vegna þess að staða ríkissjóða er alls staðar slæm, að flytja og fela fjármögnun. Við höfum séð það í kringum okkur, sérstaklega í sveitarfélögunum, að þar detta niður heilu fótboltavellirnir eins og enginn eigi að borga þá og eins og þetta kosti ekki neitt — og sundlaug sem menn byggðu, sem frægt er orðið, á Álftanesi, sem kom svo í ljós að menn urðu að borga. Allt þetta verður á endanum borgað af skattgreiðendum og mér finnst að það eigi að sýna börnum þessa lands hvað bíður þeirra þegar þau verða skattgreiðendur. Við megum ekki plata þau. Þetta eru skattar sem koma.

Hér er lagt til að farið verði í einhverja aðgerð, ég er svo sem alveg til í það og sáttur við að þetta eigi að koma aftur inn í þing með um það bil 3 milljarða kostnað, sem er gífurlega há tala, það er reyndar 10% af öllum kostnaðinum. Spurningin er: Væru menn þá tilbúnir til að hætta við? Þegar búið er að rannsaka hvað þetta kostar og í ljós kemur að þetta var allt saman della, þetta var miklu dýrara en á horfðist, sparnaður næst ekki fram, leigutekjur þurfa að vera miklu hærri, fyrirtækið sem ætlar að standa að þessu vantar pening og skjóta þarf inn miklum peningum, verðum við þá tilbúin til að segja: Nei, við erum hætt við þetta? Ég óttast að svo verði ekki. Maður þekkir það hjá útrásarvíkingunum að þeir hentu gjarnan góðum peningum á eftir slæmum til að bjarga málum. Ég hugsa að svo verði einnig í þessu tilviki. Allt í einu stöndum við uppi með framkvæmd sem við ætluðum ekki að fara í, framkvæmd sem er miklu dýrari en gert hafði verið ráð fyrir, leigutekjur hærri og sparnaðurinn næst ekki út af þessu eða hinu, nákvæmlega eins og gerðist við sameiningu Borgarspítalans og Landspítalans. Ég held að þar hafi enginn sparnaður komið fram. Þetta er það sem ég óttast.

Frú forseti. Við eigum að byggja spítala en við eigum líka að sýna það. Við eigum að sýna að hér eru komnir 3 milljarðar, bókfærðir á ríkissjóð, gjöld það árið. Síðan eigum við að sýna 30 milljarða kostnað eða 30 milljarða lán hjá ríkissjóði og ekki vera að plata börnin okkar. Við getum platað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, allt í lagi. Við skulum bara hafa tvöfalt bókhald, segja við hann: Þetta er ekki alveg að marka hérna, þessir 30 milljarðar eru fyrir spítala sem sýnir hagræðingu og slíkt. Við skulum lesa rulluna fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ef hann trúir henni er það bara fínt. En við skulum ekki plata börnin okkar, það er ljótt. Þess vegna vil ég að menn sýni þessar tölur og menn eiga líka að sýna tölur um Hörpuna. Hún er áhætta. Fjármálaráðherra framtíðarinnar getur ekki hætt við þetta allt í einu. Hann gat ekki hætt við það heldur í miðri kreppu. Ég vil því að menn sýni miklu meiri aga í ríkisfjármálum og færi til bókar hvað hlutirnir kosta þannig að börnin okkar viti hverju þau taka við af góðum arfi — sem eru eignirnar sem við skilum til þeirra, vegakerfið, spítalarnir og allt þetta, sem við erum búin að byggja upp, menntakerfið og menntað fólk, sem er kannski mesta auðlindin — og viti líka hvaða skuldir þau taka yfir. Við eigum að vera heiðarleg og sýna hvað raunverulega er að gerast í fjármálum.