138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:33]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ágætisræðu. Ég get tekið undir mörg aðvörunarorð hans. Það er kannski eitt helst sem við erum ósammála um og það er staðarvalið. Hann nefndi það í ræðu sinni að hann væri ekki hlynntur staðarvalinu. Ég er hins vegar hlynntur því staðarvali sem hefur verið ákveðið, það kom kannski ekki nægilega skýrt fram í ræðu minni hér áðan.

Það er nefnilega þannig að við sem búum úti á landi og fjöldi fólks á allt sitt undir því að flugsamgöngur séu greiðar og góðar. Staðsetning Landspítalans eins og nú er áætlað er mjög skammt frá flugvellinum í Reykjavík og það er kannski líka þess vegna sem við höfum einmitt bent á mikilvægi þess að flugvöllurinn sé á þessum stað. Við lifum í gríðarlega stóru landi, samgöngur eru því miður misjafnar og um margt erfiðar. Á þessu stóra sjúkrahúsi verður væntanlega gríðarlega mikil þjónusta og þar verður sérhæfingin mikil og sérfræðiþjónustan verður áfram þar til staðar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig hann ætli sér að leysa þennan vanda og hvað hann sé að tala um með miðsvæðis staðarvali. Er eitthvert sérstakt svæði innan höfuðborgarsvæðisins þar sem þetta á að vera? Ég sé ekki í fljótu bragði neitt slíkt svæði.