138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég kem hér upp til þess að gera grein fyrir afstöðu minni til nefndarálits meiri hluta sem hér liggur fyrir. Mér hefur raunar þótt umræðan um þetta nefndarálit hér í kvöld hafa farið dálítið víða og svona í síðustu ræðum og andsvörum fannst mér þetta raunar komið út úr öllu korti þegar menn fóru að ræða flugvallarmál í Reykjavík eða á landinu öllu.

Það er ekki eins og menn hafi gert sér almennilega grein fyrir því hvað þetta nefndarálit og sú tillaga sem meiri hluti fjárlaganefndar stendur að þýði því að þetta er í rauninni orðið að tveimur sjálfstæðum málum. Nefndarálitið og sú breytingartillaga sem hér liggur fyrir þýðir að það verkefni sem verið er að fara í er gerð raunhæfrar kostnaðaráætlunar, þetta er ekkert flóknara en það. Við getum endalaust rifist eða rökrætt hér fram og til baka um það sem á að taka við, hvernig umhverfi þetta verður o.s.frv. Við bara höfum óvart ekki upplýsingar um það í dag. Þær upplýsingar koma ekki til með að liggja fyrir fyrr en árið 2012 og fram til þess tíma, ef af þeirri ákvörðun sem á að taka í framhaldi af þeirri vinnu sem verið er að leggja hér út í verður, þarf að nýta þann tíma til undirbúnings þeirri ákvörðun jafnhliða því verkefni sem verið er að heimila að ráðast hér í.

Eins og málið var vaxið þegar það kom til fjárlaganefndar þýddi það það að við afgreiðslu óbreytts frumvarps hefðum við verið að gefa út opinn tékka. Þá hefðum við opnað fyrir greiðslu fjárhæða sem við vitum ekki enn þann dag í dag hverjar kunna að verða. Þess vegna er gert þetta hlé á málinu til málamiðlunar og ég vil taka undir orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan og staðfesta það við hæstv. forseta að vinnan í fjárlaganefndinni hjá þeim sem mæta hefur verið þannig að reynt hefur verið að ná niðurstöðu um mál og vanda til verka.

Ég skal líka viðurkenna það að forsendurnar fyrir þessari ákvörðun eru veikar og af því að hér var nefnt í ræðu einni fyrr í kvöld að þetta væri ný aðferð — sem að hluta til er rétt, það er búið til sérstakt frumvarp og lög um þessa framkvæmd — þá er að hluta til líka notuð gamla aðferðin í því að vinna í 6. gr. heimild fjárlaga með því að veita heimild til að veðsetja lóðarréttindi sem eru óskilgreindar fjárhæðir. En frumvarpið tekur á því að við ætlum að heimila þeim að ganga allt að 3 milljörðum í veðsetningu á þessum sömu réttindum. Þetta er því sambland af gamalli aðferð og nýrri.

Við þekkjum hins vegar aðferðina af fyrra verki sem er tónlistarhúsið, þ.e. að færa verkefni út úr efnahag ríkissjóðs, og eins og staðan er núna erum við komin með nokkuð mörg mál sem þannig eru vaxin upp á um 110,5 milljarða sem verið er að ræða að fara þá leið með. Það eru ekki allir sem hlusta sem skilja hvað það þýðir að vera með þessi verkefni fyrir utan efnahag. Það er með mjög einfaldaðri mynd hægt að lýsa því þannig að það sé sú aðferð sem setti sveitarfélagið Álftanes í þau fjárhagslegu vandræði sem það lenti í. Farin var sú leið að flytja ákveðin verkefni, sem voru fjármögnuð, utan efnahags. Þess vegna ber að gjalda varhuga við þessari leið. Í þessu er ákveðin blekking fólgin í þeirri stöðu sem við erum. Ég ber kvíðboga fyrir því að fjármagna þessi verkefni öll út frá þeirri einföldu staðreynd að við höfum ekki nú þegar náð tökum á fjármálum ríkissjóðsins og eigum töluvert langt í land með það. Þá er erfitt að horfa til þess að við gerum þetta með þessum hætti.

Fram til þessa hefur mest borið á því að þetta verklag sé kallað einkaframkvæmd en nú er búið að finna upp orðskrípið samstarfsframkvæmd, sem ég held að allir hafi í rauninni alveg sama skilninginn á. Þetta er bara nýtt heiti sem á að friða einhverja til þess að sætta sig við að fara þessa leið því að mikil umræða hefur verið um hina svokölluðu einkaframkvæmd sem víða hefur verið farin og víðast hvar ekki með mjög góðum árangri þó að sums staðar megi hann vissulega finna. En þetta er dýrari fjármögnunarleið fyrir opinbera aðila en sú að þeir geri þetta sjálfir.

Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli hv. þingmanna á þeim mismunandi skoðunum sem fulltrúar Framsóknarflokksins hafa haft í þessari umræðu. Það er bara óhjákvæmilegt annað en að vekja athygli á því og gera það að umtalsefni. Nefndarálit fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd er í mínum huga mjög góður rökstuðningur og efni í rökstuðning fyrir þeirri vinnu sem á eftir að inna af hendi fram að því að tekin verður ákvörðun um hvort verkið eigi að halda áfram árið 2012. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði hér á annan veg en þeir fyrirvarar sem gerðir eru í nefndaráliti frá fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefndinni sem ég get að mörgu leyti tekið undir. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um það að hún vildi í rauninni draga þetta mál saman og sína orðræðu í þrjú orð: Töf er tap. Það má örugglega færa fyrir því rök en ég hef ekki fengið þann rökstuðning í hendur enn þá í fjárlaganefnd sem sannfærir mig um það að töf í þessu máli sé tap, í það minnsta vantar mig rökleiðsluna í hverju það tap sé fólgið, ég hef ekki fengið hana. Annar frasi sem hefur verið nýttur í þessu er: Það kostar meira að gera ekkert. Ég hef ekki séð það. Það mun kosta galtóman ríkissjóð 3 milljarða að fara þá leið. Á því byggir fyrirvari minn að stærstum hluta. Að því gefnu að þetta hljóti samþykki Alþingis treysti ég því að verkið verði unnið eins og við höfum rætt í fjárlaganefndinni.

Ég vil nefna þetta sérstaklega, gera þessa athugasemd við það sem sagt er — að töf sé tap eða að það kosti meira að gera ekki neitt — og vekja bara athygli hv. þingmanna á ástandi í heilbrigðismálum á Íslandi. Ástandið í þeim efnum er með því besta sem gerist í veröldinni, það er óumdeilt, það sýna allar úttektir. Ástæður þessa eru kannski að stórum hluta tvíþættar, það eru góð lífskjör á Íslandi sem veldur því að við þurfum minna að sækja inn til heilbrigðisþjónustunnar en aðrar þjóðir kannski, í annan stað höfum við gott og vel menntað starfsfólk. Þetta liggur fyrir ásamt því að í alþjóðlegum samanburði er kostnaður í íslenska heilbrigðiskerfinu mjög mikill. Til vitnis um það má nefna að OECD gerði skýrslu um heilbrigðisþjónustuna á Íslandi árið 2008 og þegar maður gluggar í hana er mat OECD í þeirri skýrslu — sem er ekki er mjög gömul — það að í heilbrigðiskerfinu séum við yfirmönnuð í alþjóðlegum samanburði. Það eru dýrari þjónustuaðilar í þessum samanburði og þeirra mat er það að hér sé of hátt tækni- og þjónustustig. Þess vegna spyr maður með nokkurri forundran: Er dýrara að gera ekki neitt?

Niðurstaðan og málamiðlunin er sú að við eigum að leggja í þetta verkefni á þeim grunni sem hér er lagt til í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem ég og mínir ágætu félagar í Sjálfstæðisflokknum erum á með fyrirvara. Að því gefnu að það gangi eftir treysti ég því að við vinnum þetta á þeim sama grunni sem við höfum lagt upp með.