138. löggjafarþing — 134. fundur,  10. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[00:09]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að þetta mikla verkefni sé að fara af stað. Mér finnst líka mikilvægt að það skuli hafa komið fram í umræðunni og hér síðast í máli formanns heilbrigðisnefndar Alþingis, að við hefðum mörg kosið að hafa annan hátt á við fyrirkomulag fjármögnunar Landspítalans. Þetta fyrirkomulag er runnið undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur krafist þess að fjármögnunin sé í gegnum svokallaða einkaframkvæmd. Það er gamalkunnugt bókhaldstrikk til að komast hjá því að skuldirnar séu bókfærðar á ríkissjóð eða sveitarsjóði eftir atvikum. Mér finnst mjög mikilvægt að þetta sé rætt hreinskilnislega.

Staðreyndin er sú að ríkissjóður kemur til með að fjármagna framkvæmdina. Það er úr ríkissjóði sem peningarnir koma þótt þeir renni síðan til lífeyrissjóðanna og að skuldirnar séu bókfærðar á fyrirtæki í þeirra eign. Mér finnst mjög mikilvægt að talað sé tæpitungulaust og opið um nákvæmlega þetta. Það er dapurlegt til þess að hugsa að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur okkur skorður af þessu tagi. Hugmyndin um opinbert hlutafélag um vegaframkvæmdir er af sömu rót. Það er líka samkvæmt fyrirskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að við högum opinberum framkvæmdum með þessum hætti.

Það er okkar að taka ákvörðun um hvað við gerum í þessum efnum en það er mjög mikilvægt að við ræðum hreinskilnislega og heiðarlega hvernig þessi mál eru vaxin.