138. löggjafarþing — 134. fundur,  10. júní 2010.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

558. mál
[00:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fél.- og trn. (Anna Margrét Guðjónsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Viðskiptaráði Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að öllum atvinnurekendum verði á sama hátt og þeim er skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði stéttarfélaga að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins iðgjöld sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni í kjarasamningsviðræðum.

Nefndin hefur fjallað um málið sem almenn sátt virðist ríkja um hjá aðilum vinnumarkaðarins. Fyrsti minni hluti áréttar mikilvægi þess að öllu launafólki standi til boða að auka hæfni sína til starfa með endurmenntun, símenntun, námskeiðum eða annarri fræðslu óháð því hjá hvaða atvinnurekanda það starfar. Leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. — Frú forseti. Það er nú meiri hluti sem er að mæla fyrir þessu þannig að það er einhver skekkja í þessu máli. Það segir hérna að þetta sé álit frá 1. minni hluta.

Hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson, Ögmundur Jónasson og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Pétur H. Blöndal skilar séráliti.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Margrét Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson og sú sem hér stendur, Anna Margrét Guðjónsdóttir.