138. löggjafarþing — 134. fundur,  10. júní 2010.

sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

653. mál
[00:45]
Horfa

Frsm. viðskn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, með síðari breytingum. Frumvarpið er flutt af viðskiptanefnd.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa skulu fasteignasalar greiða árlegt eftirlitsgjald fyrir 1. júlí ár hvert. Fjárhæð gjaldsins nemur 100.000 kr. og skal standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala.

Frá því að innheimta eftirlitsgjaldsins hófst hefur safnast í nokkurn sjóð þar sem kostnaður við eftirlitið hefur reynst minni en talið var í upphafi. Í frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem nú liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir því að gjaldið verði lækkað í 80.000 kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að ef sýnt er fram á að fleiri en einn fasteignasali starfi hjá sama félagi og á sömu starfsstöð verði aðeins greitt einfalt gjald vegna þeirra. Í ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið er þó mælt fyrir um að gjaldið verði ekki innheimt fyrr en 1. júlí 2011, enda hafi safnast innstæða í sjóðinn sem er eðlilegt að gengið verði á.

Með hliðsjón af framangreindu leggur viðskiptanefnd til að frestun á gjaldtöku verði framlengd enda er ljóst að frumvarp til nýrra heildarlaga verður ekki að lögum fyrir þinglok.

Þess vegna er gert ráð fyrir að í stað ártalsins 2009 tvívegis í ákvæði til bráðabirgða III í gildandi lögum, komi: árið 2010. Í ákvæði til bráðabirgða III í gildandi lögum segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 19. gr. skal eftirlitsgjald ekki innheimt fyrir árið 2009. Kostnaður við starf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala á árinu 2009 skal greiðast úr sjóði nefndarinnar.“

Frumvarpið gengur sem sagt út á að þessu bráðabirgðaákvæði verði framlengt til ársins 2010 og ekki innheimt gjald fyrir það ár.

Frumvarpið er flutt af viðskiptanefnd allri.

Ég legg til að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr.