138. löggjafarþing — 134. fundur,  10. júní 2010.

aðgangur fjárlaganefndar að upplýsingakerfum ríkisins.

220. mál
[00:47]
Horfa

Frsm. fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgang fjárlaganefndar að upplýsingakerfi ríkisins.

Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því að þetta er nefndartillaga sem allir hv. þingmenn í fjárlaganefnd standa að. Það er vert að vekja á því athygli að þetta er flutt af öllum hv. þingmönnum sem sitja í fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, segir:

„Fjárlaganefnd á rétt á að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði. Enn fremur er þeim stofnunum ríkisins, er fást við efnahagsmál, skylt að veita nefndinni upplýsingar og aðstoð sem hún þarf á að halda við afgreiðslu þingmála.“

Á undanförnum árum hafa bókhalds- og upplýsingakerfi ríkisins verið endurnýjuð til að mæta aukinni þörf fyrir upplýsingar sem eru m.a. nauðsynlegar til að unnt sé að taka upplýstar ákvarðanir. Alþingi hefur hingað til einungis haft óbeinan aðgang að þessum upplýsingum í gegnum ráðuneyti og stofnanir en það fyrirkomulag hefur ekki reynst nægjanlega vel. Nauðsynlegt er að fjárlaganefnd hafi skoðunaraðgang að þeim kerfum sem geyma upplýsingarnar til að alþingismenn geti undirbúið sig og sett sig betur inn í fjárhagsleg málefni ríkisins við vinnslu þeirra. Með þeim hætti er unnt að auka gæði fjárlagavinnunnar. Ljóst er að það samræmist ekki nútímavinnubrögðum að Alþingi þurfi að bíða og sé háð því að framkvæmdarvaldið veiti þær upplýsingar sem unnt er að sækja beint í upplýsingakerfin. Þær upplýsingar sem Alþingi mun nálgast úr upplýsingakerfinu yrðu nýttar til fjárhagslegra greininga og til að afla nánari upplýsinga og skýringa hjá þeim sem bera ábyrgð á notkun fjárveitinganna. Með þessum hætti yrði aðkoma þingsins að fjárhagsmálefnum ríkisins styrkt verulega.

Virðulegi forseti. Mig langar til viðbótar að vitna í skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem var birt í apríl árið 2008 og fjallar um framkvæmd fjárlaga árið 2007 á ársáætlanir 2008. Í þeirri skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum tveimur áratugum bent ítrekað á ýmsa misbresti á framkvæmd fjárlaga. Virðingarleysi fyrir bindandi fyrirmælum fjárlaga hefur verið gagnrýnt sem og almennt agaleysi í rekstri fjölmargra stofnana. Þá hefur stofnunin ítrekað bent á misræmi í ákvörðunum fjárveitingavaldsins og framkvæmdarvaldsins. Þar er átt við að fjárveitingavaldið ákvarði umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs en forstöðumenn og ráðuneyti taki sér iðulega vald til að auka umfang hennar umfram lögbundnar heimildir. Slíkar ábendingar Ríkisendurskoðunar hafa litlu skilað. Loks er vert að geta þess að stofnunin hefur um langt árabil bent á nauðsyn þess að áætla rekstrarkostnað stofnana til lengri tíma en nú er gert og styrkja þannig fjárlagaferlið. Undir þetta tekur OECD í nýrri skýrslu um íslensk efnahagsmál.“

Ég ætla að ítreka það sem ég las hér áðan, virðulegi forseti, að Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á þetta á undanförnum tveimur áratugum.

Ég vil einnig vitna í, með leyfi forseta, í umsögn Ríkisendurskoðunar frá 9. mars sl. um frumvarp til lokafjárlaga 2008. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar eru miklir ágallar á því verklagi sem fylgt er í sambandi við fjárlög, fjáraukalög og lokafjárlög. Verklagið er ósamstætt og algengt er að fjárheimildir séu veittar eftir að til útgjalda var stofnað. Í stað þess að taka bindandi ákvarðanir um fjárútgjöld ríkisins, tekjuöflun til að mæta þeim, sem og hugsanlegar lántökur, í fjárlögum hvers árs, er fjárheimildum skv. fjárlögum breytt á hverju einasta ári með fjáraukalögum og síðan eftir dúk og disk með lokafjárlögum. Almennt er viðurkennt að svona brotakennd ákvarðanataka um fjármál hins opinbera dragi mjög úr yfirsýn og aga við fjárlagagerð og beri því að forðast í lengstu lög. Aðeins í undantekningartilvikum ætti að breyta ákvæðum fjárlaga með fjáraukalögum innan ársins (ef brýn nauðsyn er til, útgjöld geta ekki beðið næstu fjárlaga og ekki er hægt að mæta þeim með flutningi milli fjárlagaliða, t.d. af „varasjóðum“ sem ætlaðir væru til að mæta slíku). Breytingar á fjárheimildum eftir á, eins og tíðkast í lokafjárlögum, ættu einfaldlega ekki að eiga sér stað.

Sem kunnugt er hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að beiðni stjórnvalda tekið saman tvær skýrslur um fjárlagagerð og fjárstýringu íslenska ríkisins, „Strengthening the Budget Framework“ (mars 2009) og „Strengthening the Management of Cash and Fiscal Risks“ (nóvember 2009). Í þessum skýrslum, sem hafa verið kynntar fjárlaganefnd og ráðuneytum, er m.a. komist að þeirri niðurstöðu að breytingar á fjármálastjórn ríkisins hafi ekki náð því að tryggja aga í ríkisfjármálum. […] Meginágallinn er talinn sá að fjárlög ársins séu ekki virt heldur sé stofnað til nýrra útgjalda innan ársins og slík framúrkeyrsla réttlætt eftirá með fjáraukalögum. […] Talið er mjög áríðandi að ráða bót á þessum veikleikum eigi að takast að ná tökum á ríkisfjármálunum.

Að mati Ríkisendurskoðunar hefur lítið sem ekkert þokast áfram við að taka á þeim vandamálum sem hér er fjallað um. Svör stjórnvalda um hvernig gangi að hrinda umbótum í framkvæmd og sem birt eru í seinni skýrslunni hljóða almennt á þá leið að málin séu enn þá í skoðun. […] Brýnt er að Alþingi bregðist við þessum athugasemdum …“

Virðulegi forseti. Með samþykkt þingsályktunartillögunnar tel ég að við séum að bregðast við þessum athugasemdum Ríkisendurskoðunar.